Enski boltinn

Mourinho gengur ekki vel með United á móti Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho mætir Chelsea.
José Mourinho mætir Chelsea. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, fer með sína stráka til Lundúna á laugardaginn og mætir þar Chelsea þegar að enska úrvalsdeildin fer aftur af stað eftir landsleikjafrí.

Mourinho og lærisveinar hans eru í mikilli krísu en það hjálpaði þó til að vinna Newcastle í dramatískum leik áður en haldið var inn í Þjóðadeildarvikuna.

Mourinho er goðsögn í lifanda lífi hjá Chelsea en honum hefur gengið erfiðlega að leggja sitt gamla félag að velli sem knattspyrnustjóri Manchester United.

Það gekk ágætlega með Inter á sínum tíma en Mourinho vann báða leikina með ítalska liðinu í Meistaradeildinni árið 2010 á leið sinni að sigri í keppninni en Inter vann Bayern München í úrslitaleik í Madríd.

Í sex leikjum sem stjóri Manchester United á móti Chelsea hefur Mourinho fagnað sigri tvívegis en tapað fjórum sinnum. Síðast tapaði hann úrslitaleik bikarsins í maí, 1-0.

United vann Chelsea, 2-1, í febrúar á síðustu leiktíð á heimavelli en tapaði útileiknum fyrir tæpu ári síðan, 1-0. Báðir sigrarnir hafa komið á heimavelli en allir leikirnir á Brúnni hafa tapast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×