Erlent

Hug­myndir um auka­leið­toga­fund um Brexit í nóvember settar á ís

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræddi við aðra leiðtoga ESB-ríkja í Brussel fyrr í kvöld.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræddi við aðra leiðtoga ESB-ríkja í Brussel fyrr í kvöld. getty/Pier Marco Tacca
Búið er að setja hugmyndir um að halda sérstakan leiðtogafund ESB í nóvember þar sem útganga Bretlands úr sambandinu yrði rædd, á ís.

Þetta herma heimildir Reuters. Ástæðan er sögð sú að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, bauð öðrum leiðtogum ESB-ríkja ekki upp á neinar nýjar hugmyndir sem miða að því að leysa helstu deilumálin í samningaviðræðum ESB og breskra stjórnvalda um Brexit.

Nái aðalsamningamaður ESB í Brexit-viðræðunum ekki áþreifanlegum árangri verði ekkert úr sérstökum Brexit-leiðtogafundi í næsta mánuði, eins og hugmyndir voru uppi um.

Litlar væntingar

Fundi leiðtogaráðs ESB lauk í Brussel klukkan 20:30 í kvöld. Eitt af markmiðum fundarins var að boða til annars leiðtogafundar í nóvember, úrslitafundar þar sem hægt yrði að leggja smiðshöggið á samning ESB og breskra stjórnvalda. Það tókst ekki.

Væntingarnar fyrir fundinn voru ekki miklar, en Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, kveðst þó ekki hafa gefist upp. Áfram verði unnið að lausn næstu vikurnar, meðal annars um hvernig skuli haga málum á landamærum Írlands og Norður-Írlands.

Mikilvægt mál

Enn á eftir að ná saman um hvernig verði hægt að halda landamærunum hins breska Norður-Írlands og ESB-ríkisins Írlands opnum. Niðurstaðan er gríðarlega mikilvæg, bæði til að hægt verði að viðhalda friðarsamningnum frá 1998, auk þess að opin landamæri skipta efnahag beggja landanna miklu.

Reuters segir að sumir leiðtogar ESB-ríkja hafi verið bjartsýnni eftir kvöldverðinn í kvöld þar sem May hélt tuttugu mínútna ræðu og sagði vel mögulegt að ná samningum. Í frétt BBC segir að May hafi meðal annars sagt Bretland vera reiðubúið að lengja 21 mánaða aðlögunartímabil eftir útgöngu til að hægt verði að ná samningum um tilhögun á landamærunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×