Sport

Mættu af öllu afli á dansæfingar síðan í júlí og það skilaði árangri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Lissabon skrifar
Hekla í loftinu í æfingum á dýnu
Hekla í loftinu í æfingum á dýnu mynd/kristinn arason
Íslenska stúlknaliðið í hópfimleikum tryggði sér í gær sæti í úrslitum á EM í hópfimleikum. Fyrirliði liðsins, Hekla Björt Birkisdóttir, var hæst ánægð með hvernig gekk hjá liðinu.

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegur dagur. Liðið er búið að standa sig svo vel og við erum orðnar ótrúlega spenntar fyrir föstudeginum,“ sagði Hekla eftir keppnina í gær.

Íslenska liðið varð annað í undankeppninni með 51.200 stig. Svíar unnu keppnina með 53.200 stig. Íslenska liðið fékk bestu einkunn allra í danskeppninni í kvöld, 20.800 stig.

„Við erum sjúklega ánægðar með þetta. Við erum búnar að æfa saman síðan í júlí, mæta á dansæfingar af öllu afli og þetta er búið að vera klikkað.“

Liðið fékk nokkur föll á trampólíninu, sem þýðir að þær geta bætt sig á föstudag og veitt Svíunum harða keppni um gullið. Ísland á titil að verja í þessum flokki.

„Já, við munum bæta þetta upp á föstudaginn og reynum að lenda öll stökkin þá,“ sagði Hekla Björt Birkisdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×