Enski boltinn

Fabregas í heimsmetabók Guinness

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cesc Fabregas er heimsmethafi.
Cesc Fabregas er heimsmethafi. mynd/guinness
Cesc Fabregas, miðjumaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, er kominn í heimsmetabók Guinness en hann varð allra manna fljótastur að gefa 100 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni.

Spánverjinn magnaði afrekaði það að gefa 100 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni í aðeins 293 leikjum en til dæmis tók það Ryan Giggs 367 leiki að gefa 100 stoðsendingar.

Það er reyndar langt síðan að Fabregas tókst þetta merka afrek en 100. stoðsendingin kom á gamlársdag árið 2016 þegar ða hann lagði upp annað mark Brasilíumannsins Willian í 4-2 sigri Chelsea gegn Stoke.





„Ég er ekki sá fljótasti, ekki sá sterkasti og hoppa ekki hæst en að ná þessu meti gerir mig mjög stoltan því þetta er mitt starf og ég hef sinnt því vel,“ segir Fabregas um metið.

Fabregas hóf ferilinn í ensku úrvalsdeildinni með Arsenal aðeins 16 ára gamall árið 2004 en gekk í raðir uppeldisfélagsins Barcelona árið 2011. Þremur árum síðar kom hann aftur til Englands og þá til Chelsea þar sem hann hefur orðið Englandsmeistari í tvígang.

Fleiri ný met úr ensku úrvalsdeildinni má finna í 2019 útgáfu heimsmetabókarinnar. Mo Salah skoraði 32 mörk á síðustu leiktíð sem er nýtt met og þá skoraði hann á móti 24 liðum sem er einnig met.

Harry Kane skoraði flest mörk á einu almanaksári (39) og skoraði sex þrennur á sama tíma sem er einnig heimsmet í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×