Enski boltinn

Gylfi hefur bætt sig næstmest: „Everton núna að fá það sem að það borgaði fyrir“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að vera frábær fyrir Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að vera frábær fyrir Everton. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er í öðru sæti á lista The Guardian yfir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni sem hafa bætt sig hvað mest frá síðustu leiktíðar til þeirrar sem stendur yfir núna.

Gylfi átti erfitt uppdráttar á sínu fyrsta ári hjá Everton eftir 45 milljóna punda kaup frá Swansea en nú er hann að spila sína uppáhaldsstöðu og öll tölfræði liggur upp á við.

Callum Wilson, leikmaður Bournemouth, er búinn að bæta sig mest samkvæmt úttekt The Guardian en einkunn hans fyrir byrjun leiktíðar er 7,27 og fer upp um 0,73. Gylfi fer upp um 0,62 frá síðustu leiktíð og er með einkunn upp á 7,52.

„Gylfi Sigurðsson spilaði ekkert sérstaklega vel á sínu fyrsta ári með Everton en vissulega undir erfiðum kringumstæðum,“ segir í umsögn um Gylfa en þjálfaraskipti voru tiltölulega snemma á leiktíðinni hjá Everton í fyrra.

„Félagið er að fá það sem það borgaði fyrir á þessari leiktíð. Gylfi var neyddur til að spila út úr stöðu í fyrra en Íslendingurinn blómstrar í sínu uppáhaldshlutverki fyrir aftan fremsta mann.“

„Tölfræði Gylfa yfir lykilsendingar hafa tvöfaldast úr 1,4 í 2,9 að meðaltali í leik og þá er hann búinn að skora nokkur glæsileg mörk. Hann er búinn að skora fjögur mörk í átta leikjum en hann skoraði fjögur mörk allt síðasta tímabil,“ segir The Guardian um Gylfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×