Sport

Er maðkur í mysunni hjá alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunni?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Edwin Moses.
Edwin Moses. vísir/getty

Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunin, WADA, er ekki að fá góða umfjöllun í dag og því jafnvel gefið undir fótinn að meðlimir stofnunarinnar gangi erinda Rússa.

Í síðasta mánuði ákvað WADA að leyfa Rússum aftur að byrja með sitt eigið lyfjaeftirlit eftir nokkurra ára bann. Sú ákvörðun var harðlega gagnrýnd.

Nú segir Edwin Moses, tvöfaldur Ólympíumeistari og meðlimur í stjórn WADA, frá því að honum var sagt að grjóthalda kjafti á fundi stofnunarinnar á dögunum er hann mælti gegn því að hleypa Rússum aftur inn.

Annar meðlimur í stjórninni, Beckie Scott, segist hafa orðið fyrir aðkasti frá stjórninni er hún setti sig upp á móti því að gefa grænt ljós á Rússa. Hún hætti í kjölfarið.

Ummæli þeirra tveggja kasta rýrð á trúverðugleika WADA og margir sem telja að búið sé að múta meðlimum WADA.

„Af hverju er fólk í þessari stjórn að vera með yfirgang gegn fólki sem talar með því að íþróttir eigi að vera hreinar?“ spyr Moses en hann vann 122 hlaup í röð á ferlinu sínum í 400 metra grindahlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×