Enski boltinn

Aðeins 95 mínútur á milli marka hjá Jóni Daða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði Böðvarsson er í fínum gír á nýju tímabili.
Jón Daði Böðvarsson er í fínum gír á nýju tímabili. vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson, framherji Reading í ensku B-deildinni í fótbolta, fer virkilega vel af stað þetta tímabilið og í raun miklu betur sjálfur heldur en liðið sem er aðeins búið að vinna tvo leiki af tíu.

Jón Daði skoraði tvö mörk af miklu harðfylgi í 2-2 jafntefli gegn Brentford um helgina en hann er nú búinn að skora sex mörk í níu leikjum fyrir Reading í deildinni.

Selfyssingurinn er búinn að byrja inn á sex sinnum og koma inn á sem varamaður í þrígang og spila í heildina 569 mínútur. Hann er því búinn að skora mark á 95 mínútna fresti eða næstum eitt mark að meðaltali í hverjum leik.

Aðeins eru færri mínútur á milli marka hjá einum leikmanni í deildinni en það er hjá Neal Maupay, leikmanni Brentford, sem einmitt skoraði fyrra markið á móti Reading um helgina.

Maupay, sem er markahæstur í deildinni með níu mörk, er að skora á 74 mínútna fresti en hann er með níu mörk á 667 mínútum spiluðum.

Jón Daði skoraði sjö mörk í 33 leikjum (20 í byrjunarliði) fyrir Reading í deildinni á síðustu leiktíð og vantar nú aðeins eitt upp á til að jafna þann markafjölda eftir aðeins tíu umferðir.

Íslenski landsliðsframherjinn hefur mest skorað níu mörk í deildarkeppni á einni leiktíð en það var árið 2015 þegar að hann skoraði níu mörk í 29 leikjum fyrir Viking í norsku úrvalsdeildinni.

Mörkin úr leiknum á móti Brentford má svo sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×