Erlent

Frakkar frysta eigur Írana vegna misheppnaðrar árásar

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Frakklandi á dögunum.
Lögregluþjónar að störfum í Frakklandi á dögunum. Vísir/EPA
Yfirvöld Frakklands hafa lagt hald á og fryst eigur leyniþjónustu Íran og tveggja íranskra embættismanna vegna misheppnaðrar sprengjuárásar nærri París í júní. Árásin beindist gegn samkomu íranskra stjórnarandstæðinga sem eru í útlegð. Samtökin sem um ræðir heita National Council of Resistance of Iran og eru starfrækt í París.

Frakkar höfðu varað Íran við hörðum viðbrögðum þegar íranskur erindreki og tveir aðrir voru handteknir vegna misheppnuðu árásarinnar.



Nánar tiltekið átti árásin að beinast gegn samkomu í Villepinte þann 30. júní. Rudy Giuliani, lögmaður Donald Trump, og nokkrir fyrrverandi ráðherrar frá Evrópu og Mið-Austurlöndum voru á samkomunni.

Í tilkynningu frá bæði Utanríkisráðuneyti og Fjármálaráðuneyti Frakklands segir að svo alvarlegt atvik verði að hafa afleiðingar.

Samhliða haldlagningunni segir France24 frá því að umfangsmiklar lögregluaðgerðir hafi átt sér stað í norðurhluta Frakklands í morgun og þær hafi beinst gegn samtökum sjíta og leiðtogum samtakanna, sem sakaðir eru um að styðja við hryðjuverkahópa. Samtökin og leiðtogar þeirra eru sagðir tengjast Íran.



Það hefur þó ekki verið staðfest að aðgerðirnar tengist misheppnuðu sprengjuárásinni. Le Monde segir samtökin sem um ræðir þó tengjast bæði Íran og Hezbollah hryðjuverkasamtökunum.



Versnandi samband Frakklands og Íran gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir Írana þar sem Frakkland hefur hingað til verið helsta stuðningsríki kjarnorkusáttmálans við Íran. Eftir að Trump dró Bandaríkin frá sáttmálanum hafa Frakkar hvatt til þess að halda sáttmálanum virkum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×