Erlent

Hestur labbaði inn á bar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nei, þetta er ekki byrjunin á fimmaurabrandara.
Nei, þetta er ekki byrjunin á fimmaurabrandara. Skjáskot
Veðhlaupatrippi hljóp inn á bar í Frakklandi eftir að hafa sloppið frá tamningamanni sínum í liðinni viku.

Tamningamaðurinn, Jean-Marie Beguignem, sagði í samtali við þarlenda fjölmiðla að hrossið hafi stungið af þegar hann reyndi að flytja dýrið úr hesthúsi einu að nálægri veðhlaupabraut um 50 kílómetra norðan af París, höfuðborg Frakklands. Þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem hesturinn hefði hlaupist á brott, að sögn Beguignem.

Í stað þess að halda út á engi tók hesturinn stefnuna rakleiðis á næsta bar. Upptaka úr öryggismyndavél sýnir dýrið hlaupa meðfram barborðinu, fram og til baka, og hræða alla innanhúss - að frátöldum einum manni sem stendur spakur við gluggann, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.

Þrátt fyrir að hrossið hafi rutt stólum og borðum um koll eru skemmdirnar taldar vera minniháttar. Að sama skapi slasaðist enginn, hvorki tví- né ferfætlingur.

Athugið: Smella þarf á myndbandið til að hefja áhorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×