Innlent

Hafna því að viðbúnaður vegna smitsjúkdómfaraldurs sé slæmur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir Landlæknisembættisins. Fréttablaðið/Stefán
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir Landlæknisembættisins. Fréttablaðið/Stefán
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tekur ekki undir þau orð smitsjúkdómalæknisins Magnúsar Gottfreðssonar að Ísland sé furðu illa búið undir næstu spænsku veiki. Mikil vinna hafi verið unnin undanfarin ár til að vera viðbúin heimsfaraldri inflúensu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sóttvarnalækni á vef landlæknis. Með yfirlýsingunni er brugðist við fullyrðingum Magnúsar í frétt í Fréttablaðinu í gær og í leiðara Læknablaðsins.Þar var fullyrt að birgðastöðu nauðsynlegra lyfja væri ábótavant og að í venjulegu árferði sé Landspítalinn yfirfullur „og því knúinn til að lýsa yfir viðbúnaðarstigi vegna minni háttar aukningar á álagi“.

„Sóttvarnalæknir telur nauðsynlegt að leiðrétta ýmislegt sem fram kemur í frétt Fréttablaðsins og ritstjórnargrein Læknablaðsins. Á undanförnum árum hefur mikil vinna verið innt af hendi af sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í samvinnu við ýmsa aðila í þjóðfélaginu við gerð viðbragðsáætlunar gegn heimsfaraldri inflúensu,“ segir í yfirlýsingunni.

Mikilvægt sé að hafa í huga að ekki sé hægt að dæma viðbrögð við alvarlegum farsóttum út frá aðbúnaði á Landspítala einum heldur einnig viðbrögðum sem áætluð séu í samfélaginu öllu. Til séu birgðir af nauðsynlegum lyfjum og vökva í rúman ársfjórðung, veirulyf fyrir 40 þúsund manns og bóluefni fyrir tæplega helming íbúa landsins. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×