Enski boltinn

Mourinho: Leikmennirnir reyndu og lögðu meira á sig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mourinho er í smá vandræðum.
Mourinho er í smá vandræðum. vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, var nokkuð sáttur með sína menn eftir markalaust jafntefli gegn Valencia á heimavelli í Meistaradeildinni í kvöld.

„Við fengum nokkur góð færi til þess að vinna leikinn en úrslitin voru sanngjörn,” sagði Mourinho en hann var ánægður með að leikmennirnir lögðu sig fram:

„Leikmennirnir reyndu. Þeir lögðu meira á sig. Það var meiri kraftur í liðinu. Við höfum ekki tæknileg gæði til þess að spila út úr vörninni.”

„Við gerðum vel í að stoppa þá í skyndisóknunum því það eru þeir góðir. Við vissum að við myndum ekki fá tuttugu færi og okkar framherjar eru ekki með mikið sjálfstraust.”

Valencia fékk fá færi í leiknum og United fékk bestu færin meðal annars er Marcus Rashford skaut í slána úr aukaspyrnu.

„Við héldum að í þremur til fjórum færum myndum við skora og vinna leikinn en þetta eru ekki slæm úrslit. Þau eru heldur ekki góð. Við höfum tvo leiki gegn Juventus til þess að ná í stig því þetta er erfiður riðill.”

„Við spilum við Newcastle áður en deildin fer í smá frí og svo eigum við Chelsea og Juventus á þremur dögum. Það myndi vera gott fyrir liðið ef við gætum unnið Newcastle,” sagði Portúgalinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×