Enski boltinn

Scholes vill að Mourinho verði rekinn: „Hann er félaginu til skammar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho gæti verið rekinn í vikunni.
José Mourinho gæti verið rekinn í vikunni. vísir/getty
Paul Scholes, goðsögn í lifanda lífi á Old Trafford, vill að José Mourinho verði rekinn því frammistaða liðsins upp á síðkastið er ekki nógu góð og þá er Portúgalinn sjálfur félaginu til skammar.

United er án sigurs í síðustu fjórum leikjum en eftir að gera jafntefli við nýliða Úlfana á dögunum tapaði það á útivelli fyrir West Ham í deildinni um síðustu helgi og gerði svo markalaust jafntefli á heimavelli á móti Valencia í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Scholes var sérfræðingur í myndveri BT Sport að fjalla um leiki gærkvöldsins þar sem að hann var spurður hvort að hann héldi að Mourinho yrði rekinn á næstunni.

„Ég vona það, við skulum orða það þannig,“ svaraði Scholes.

„Mér finnst í raun ótrúlegt að hann hafi lifað laugardaginn af því frammistaðan á móti West Ham var það slæm. Við ætlum að sýna hér klippur af viðhorfi leikmanna. Frammistaða liðsins er bara ekki næstum því eins góð og hún þarf að vera.“

Scholes er kominn með nóg af framkomu Portúgalans sem lætur leikmenn sína heyra það óspart á blaðamannafundum.

„Mourinho er endalaust að gagnrýna leikmenn sína á blaðamannafundum og hann er að gagnrýna yfirmenn sína því hann er greinilega ekki að fá það sem að hann vill,“ segir Scholes.

„Hann ræður ekkert við kjaftinn á sér og er félaginu til skammar,“ segir Paul Scholes.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×