Lífið

„Mamma þvoði á mér hárið þangað til ég var 24 ára“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eyfi hefur komið víða við á sínum ferli.
Eyfi hefur komið víða við á sínum ferli.
Í þætti Íslands í dag á Stöð 2 í gærkvöldi var rætt við tónlistarmanninn Eyjólf Kristjánsson og sagði hann skemmtilegar sögur af ferlinum og hvernig honum tókst að halda sér myndarlegum og hárprúðum fram eftir aldri. Eyfi hefur sungið og spilað fyrir þjóðina í meira en þrjátíu ár, en hann er í dag 57 ára gamall. Hann ætlaði að verða tónlistarmaður alveg frá unglingsaldri.

„Fyrsta lagið sem kom mér á kortið sem lagahöfundi var lagið Ég lifi í draumi sem Björgvin Halldórsson söng í Eurovision-undankeppninni hérna heima, í fyrsta sinn sem við tókum þátt og ég held að það lag, sé það lag sem ég held kannski mest upp á því það var stökkpallur fyrir mig inn í þennan bransa.“

Stökkpallurinn lyfti honum ansi hátt og óhætt að segja að Eyfi hafi síðan verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins.

„Það var pínulítið auðveldara að vera þekktur í þessum bransa þegar ég var að byrja því það var bara ein sjónvarpsstöð og ein útvarpsstöð. Ég hef aldrei litið á mig sem frægan einstakling, frekar bara sem þekktan, þjóðþekktan. Maður er þjóðareign.“

Eyfi er án efa þekktastur fyrir lagið Draumur um Nínu sem hann söng með Stefáni Hilmarssyni á Ítalíu í Eurovision árið 1991.

Stebbi og Eyfi á Ítalíu árið 1991.
„Þetta er kannski ekki eitt af mínum uppáhalds lögum en ég er mjög stoltur af því og mjög stoltur af flutningi mínum og Stefáns úti á Ítalíu. Ég er ennþá stoltari af því hvað fólk tók laginu vel, þrátt fyrir að laginu gekk ekki mjög vel í keppninni. Það dó í keppninni en lifnaði við einhvernveginn aftur heima.“

Eyfa líður vel í dag og er hamingjusamur.

„Það er ofboðslega lítil streita í mér, ég hef aldrei fundið fyrir streitu og veit ekki hvað það er. Maður þarf bara að finna þennan punkt í lífinu og ef þú getur gert það með eiginkonu þinni og fjölskyldu er það það besta í heiminum.“

Eyfi vinnur nú að stórtónleikum í tilefni 30 ára starfsafmæli en tónleikarnir verða tveir og fara báðir fram þann 13. október. Söngvarinn þótti alltaf sætur og hárprúður enda sá móðir hans um það að svo væri.

Eyjólfur hvíttar stundum tennur í dag.
„Mamma þvoði á mér hárið þangað til ég var 24 ára, það er bara svoleiðis. Ég var mjög hárprúður á þessum árum en ég held að það sé pínulítið henni að kenna hvernig komið er fyrir hárið á mér í dag. Hún notaði einhver amerísk sjampó sem hún keypti út í Ameríku og þetta var svona grænt eins og geislavirku úrgangur á litinn. Þetta setti hún í hausinn á mér og ég held að þetta hafi eyðilagt hársvörðinn á mér.“

Hann segist hafa getað lifað vel á tónlistinni.

„Á níunda áratuginum var ég mjög efnaður. Ég var með meiri tekjur en pabbi mig sem var mjög efnaður. En þetta fer upp og niður í sveiflum.“

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×