Innlent

Óhagstæð skilyrði þrengi svigrúm til launahækkana

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, við kynningu á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í morgun.
Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, við kynningu á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í morgun.
Aðstoðarseðlabankastjóri telur svigrúm til launahækkana að meðaltali vera um fjögur prósent. Seðlabankastjóri segir það jafnvel minna til skemmri tíma. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum að sinni.

Meginvextir Seðlabanka Íslands verða áfram óbreyttir 4,25%, til að minnsta kosti 7. nóvember næstkomandi, sem er næsti vaxtaákvörðunardagur. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem var birt í morgun segir að peningastefnan á næstunni muni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, segir að Seðlabankinn muni fylgjast grannt með komandi kjaraviðræðum. „Það er alveg ljóst að til lengdar þurfa launaákvarðanir að samræmast verðbólgumarkmiði. Þess vegna munum við fylgjast vel með," segir hún.

Verði launahækkanir of miklar, og samrýmist ekki verðbólgumarkmiði bankans, muni það líklega leiða til vaxtahækkunar. Hún segir svigrúmið ekki mikið.

„Við erum alltaf með þessa sömu möntru. Það er verðbólgumarkmið plús framleiðnimarkmið til lengdar. Þannig að það er í rauninni að meðaltali einhver fjögur prósent, haldist annað óbreytt," segir Rannveig.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri bætir við að þetta sé svigrúmið til lengri tíma. Færa megi rök fyrir því að svigrúmið til skemmri tíma sé jafnvel minna. 

„Olíuverð hefur hækkað mjög mikið. Við erum að sjá hvað gerist varðandi eina af okkar útflutningsgreinum, sem er flugið, sem er ekki að fá hækkanir á sínum afurðaveðrum. Raunlaun eru þegar orðin mjög há, raungengið er mjög hátt. Og þess vegna er alveg hægt að færa rök fyrir því að svigrúmið um þessar mundir sé minna heldur en langtíma svigrúmið," segir Már.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×