Fótbolti

Mkhitaryan ekki með gegn Hannesi af pólitískum ástæðum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mkhitaryan varð eftir í Lundúnum
Mkhitaryan varð eftir í Lundúnum Vísir/Getty
Henrikh Mkhitaryan verður ekki í leikmannahópi Arsenal gegn liði Hannesar Þórs Halldórssonar Qarabag í Evrópudeildinni í kvöld. Mkhitaryan getur ekki tekið þátt í leiknum af pólitískum ástæðum.

Mkhitaryan er Armeni og Qarabag er lið frá Aserbaísjan. Þessi lönd hafa lengi deilt um Nagorno-Karabakh svæðið og er mikil spenna á milli þjóðanna.

„Hann getur ekki komið hingað,“ sagði knattspyrnustjórinn Unai Emery. „Ég ber virðingu fyrir öllum menningum og öllum löndum, en ég þekki ekki stöðuna alls staðar. Að mínu mati getur hann ekki spilað.“

BBC Sport hefur eftir UEFA að Mkhitaryan og Arsenal hafi tekið sameiginlega ákvörðun um að hann færi ekki með liðinu öryggis hans vegna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist, Mkhitaryan missti af Evrópuleik Borussia Dortmund í Aserbaísjan árið 2015 af sömu ástæðu.

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar fer fram í Bakú, höfuðborg Aserbaísjan. Emery vildi ekkert tjá sig um það hvort Mkhitaryan færi með í þann leik, komist Arsenal þangað.

Leikur Qarabag og Arsenal hefst klukkan 17:00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×