Enski boltinn

Mourinho hélt 45 mínútna þrumuræðu yfir leikmönnum United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekkert gengur hjá þeim portúgalska.
Ekkert gengur hjá þeim portúgalska. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, messaði yfir leikmönnum sínum með 45 mínútna langri þrumuræðu á hóteli í Manchester fyrir leikinn á móti Valencia. Frá þessu greina enskir miðlar í dag.

Mourinho kallaði leikmenn sína til fundar sem átti, samkvæmt ensku blöðunum, að standa yfir í 20 mínútur en hann öskraði á þá í 45 mínútur og lét þá heyra það fyrir skelfilega frammistöðu í 3-1 tapi á móti West Ham um síðustu helgi.

Starfsfólk Lowry-hótelsins heyrði Mourinho brýna raust sína ítrekað en leikmenn United sátu bara og hlustuðu á Portúgalann hella úr skálum reiði sinnar.

Þetta skilaði ekki miklu því United spilaði hörmulegan fótbolta á móti Valencia og fékk varla færi í markalausu jafntefli. United er nú án sigurs í fjórum leikjum í röð og mætir Newcastle í deildinni um helgina áður en kemur að landsleikjafríi.

Margir gagnrýna Mourinho og leikstíl liðsins þessa dagana en Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður United, er búinn að fá alveg nóg og segir að Mourinho sé félaginu hreinlega til skammar. Hann kallaði eftir höfði hans á þriðjudagskvöldið eftir jafnteflið gegn Valencia.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×