Enski boltinn

Roy Keane lætur „grenjuskjóðurnar“ í boltanum heyra það | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roy Keane var mikill nagli á velli.
Roy Keane var mikill nagli á velli. vísir/getty
Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, óskar José Mourinho, knattspyrnustjóra félagsins, alls hins besta í baráttunni við leikmenn liðsins sem sumir hverjir eru verulega ósáttir við Portúgalann þessa dagana.

Mikið hefur verið gert úr sambandi Mourinho og Pogba sem er talinn vilja komast burt og þá er stjórinn sagður varla tala við fyrirliðann Antonio Valencia.

Roy Keane var spurður út í stöðuna hjá Manchester United í viðtali við sjónvarpstöð Nottingham Forest en Keane spilaði með Forest áður en að hann var keyptur til Manchester United.

„Það eiga ekki allir fótboltamenn og knattspyrnustjórar samleið. Stjórum líkar ekki við alla leikmenn. En, það sem að maður gerir sem fótboltamaður, er að þú spilar fyrir liðið þitt. Ég hef lent upp á kant við einn eða tvo stjóra en alltaf gerði ég það,“ segir Keane.

„Mér er alveg sama hvað kom upp á milli þín sem leikmanns og stjórans eða hvort þið hafið verið að rífast. Svona er þessi bransi en sögurnar verða alltaf ýktari hjá Manchester United sem er eitt stærsta félag heims.“

„Þegar að þú ert leikmaður Manchester United og þú gengur út á völlinn klæddur þessari treyju og þú gefur ekki 100 prósent í leikinn... gangi Mourinho bara vel með þetta allt saman,“ segir Keane.

Írinn vildi ekki nafngreina neinn þegar að umsjónarmenn þáttarins fóru að benda á Paul Pogba. Keane er bara almennt ósáttur við suma fótboltamenn nútímans sem virðast væla meira en gamli skólinn.

„Ég er ekki að tala um Pogba. Ég er að tala um leikmenn sem fara í fýlu út í stjórann eða aðra í þjálfaraliðinu og æfa ekki almennilega því að þeir eru í uppnámi,“ segir Keane.

„Það er mikið af væluskjóðum þarna úti en þegar að þú gengur út á völlinn ertu að spila fyrir liðið þitt, stoltið og borgina. Ekki vera að pæla á þeirri stundu í því hvað stjórinn sagði við þig eða þjálfararnir.“

„Þú mátt kvarta yfir öllu eftir leikinn en á meðan að leik stendur þarftu að vera eins og maður og spila með stolti, krafti, orku og vonandi smá gæðum. Þú getur átt slæman dag en ef sú er raunin þá bretturðu upp ermar og berst fyrir treyjuna en lætur ekki einhvað utanaðkomandi hafa áhrif á þig,“ segir Roy Keane.


Tengdar fréttir

Pogba: Mér var bannað að tala

Paul Pogba segir sér hafa verið bannað að ræða við fjölmiðla eftir jafntefli Manchester United og Valencia í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×