Erlent

Nóbelsverðlaunahafi sem þurfti að selja verðlaun sín látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Leon Lederman.
Leon Lederman. AP/FermiLab
Nóbelsverðlaunahafinn og eðlisfræðingurinn Leon Lederman er látinn. Hann lést á dvalarheimili í Rexburg í idaho að sögn eiginkonu hans og var 96 ára gamall. Lederman fékk Nóbelsverðlaunin árið 1988 fyrir störf sín varðandi öreindir og var það hann sem fann upp á viðurnefninu „guðseindin“ fyrir Higgs-bóseind.

Lederman stýrði einnig Fermi rannsóknarstöðinni í Chicago á árunum 1978 til 89.

„Það sem hann elskaði var fólk,“ segir Ellen Carr Lederman við AP fréttaveituna. „Að reyna að fræða fólk og hjálpa því að skilja hvað þeir voru að gera í vísindunum.“

Lederman fæddist 15. júlí 1922 í New York. Hann fékk háskólagráðu í efnafræði árið 1943, þjónaði í hernum í þrjú ár í seinni heimsstyrjöldinni og fékk doktorsgráðu í eðlisfræði árið 1951.

Ledermann notaði verðlaunaféð sem hann fékk með Nóbelsverðlaununum til að kaupa sumarhús í Idaho en hann og eiginkona hans fluttu þangað árið 2011 vegna slæmrar heilsu hans. Hann þurfti svo að selja verðlaunagripinn á uppboði árið 2015 til að eiga fyrir lækna- og lyfjakostnaði.

Michael Turner, prófessor hjá Háskólanum í Chicago, sem rekur Fermi rannsóknarstöðina, segir framlag Lederman til skilnings mannsins á þeim grunnöflum sem mynda heiminum hafa verið einstakt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×