Enski boltinn

City setti upp myndavélar á rútuna fyrir ferðina á Anfield

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Liverpool voru ekki beint til fyrirmyndar þegar þeir mættu Manchester City í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í vor.
Stuðningsmenn Liverpool voru ekki beint til fyrirmyndar þegar þeir mættu Manchester City í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í vor. vísir/getty
Manchester City ætlar að setja upp myndavélar á liðsrútu sína fyrir leik City gegn Liverpool á sunnudaginn ef rútan verður aftur grýtt eins og gerðist fyrir leik liðanna á síðasta tímabili.

Í apríl drógust liðin saman í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Fyrri leikur einvígisins fór fram á Anfield og þegar rúta City liðsins keyrði upp að vellinum var flöskum og blysum kastað í rútuna.

Nokkrir gluggar rútunnar brotnuðu og skemmdist hún það mikið að hún var óökuhæf og finna þurfti nýja bifreið til þess að flytja liðið heim að leik loknum.

ESPN greinir frá því að þó Manchester City hafi fulla trú á því að ferðin á sunnudaginn verði hin friðsælasta þá mun liðið gera allt sem það getur til þess að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur.

Búið er að setja upp háskerpu myndavélar í rútunnu sem ná í 360 gráður. Því mun City geta afhent lögreglunni myndir af sökudólgunum komi svipað atvik upp. Þá mun rútan ekki fara sömu leið að vellinum og hún gerði í vor.

Leikur Liverpool og Manchester City er stórleikur helgarinnar í enska boltanum. Hann fer fram klukkan 15:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Stuðningsmenn Liverpool eyðilögðu rútu City

Liverpool hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið biðst afsökunar á skemmdarverkum á liðsrútu Manchester City fyrir leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×