Umfjöllun: Akureyri - Afturelding 25-22 | Fyrstu stig Akureyri komu gegn Mosfellingum

Tryggvi Páll Tryggvason í Höllinni á Akureyri skrifar
Nýliðar Akureyrar eru komnir á blað í Olís-deildinni
Nýliðar Akureyrar eru komnir á blað í Olís-deildinni S2 Sport
Akureyri er komið á blað í Olís-deild karla í handbolta eftir góðan sigur á Aftureldingu á Akureyri í dag. Lokatölur urðu 25-22 í miklum spennuleik.

Fyrir leikinn voru heimamenn án stiga eftir þrjá leiki en gestirnir voru í öllu betri stöðu, taplausir með fimm stig. Akureyringar þurftu nauðsynlega á stigunum að halda og þrátt fyrir að jafnræði hafi verið með liðunum í leiknum voru heimamenn alltaf hálfu til einu skrefi framar en Afturelding í leiknum í dag.

Akureyri var yfir í hálfleik 14-11 eftir góðan lokakafla undir lok fyrri hálfleiks. Bæði lið skelltu í lás í seinni hálfleik en eftir fimmtán mínútna leik höfðu liðin aðeins skorað sjö mörk. Akureyri virtist ætla að síga fram úr með góðum kafla þegar um tíu mínútur voru eftir.

Gestirnir gerðu þó lokaatlögu að því að ná sigri og unnu sig úr 20-17 í 20-20 með þremur mörkum í röð. Þá lokaði Marius Aleksejev marki Akureyrar og Hafþór Vignisson skoraði tvo mikilvæg mörk í röð. Eftir það náði Afturelding ekki að finna kraftinn til að jafna aftur og fyrsti sigur Akureyrar í deildinni þetta tímabilið því staðreynd.

Af hverju vann Akureyri?

Það sem skildi liðin að í þessu sinni var að vörn og markvarsla Akureyrar var betri en vörn og markvarsla Aftureldingar. Marius í marki Akureyrar varði jafnt og þétt allan leikinn auk þess sem hann tók kafla þar sem hann lokaði markinu.

HInu megin var Arnór Freyr Stefánsson, sem var sjóðheitur í september, í töluverðu basli og kom Pálmar Pétursson inn á snemma leiks í markið. Átti hann ágætan leik en átti hann þó ekki roð í Marius. Fyrir framan Marius var svo mikill kraftur og barátta í varnarleiknum.

Á sama tíma og vörn Akureyrar var öflug mallaði sóknarleikurinn ágætlega áfram og í leiknum kom aldrei kafi þar sem ekkert gekk á þeim bænum hjá Akureyri. Það skilaði að lokum sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Óhætt er að segja að Marius í markinu hafi staðið upp úr í dag og skipti frammistaða hans sköpum. Ekki síst í stöðunni 20-20 þegar hann varði í tvígang úr góðum færum Aftureldingar.

Hafþór Vignisson átti einnig góðan dag en hann skoraði tvo lykilmörk eftir að Afturelding hafði náð að jafna um miðbik leiksins. Að sama skapi var Ihor Kopyshynskhyi öflugur. Hann var markahæstur í liði Akureyrar með sjö mörk úr átta skotum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Aftureldingar var ekki nógu öflugur í dag. Bæði létu liðsmenn liðsins verja frá sér úr ágætum færum auk þes sem að sóknir þeirra voru á köflum of langar og hægar. Best gekk liðinu þegar það náði að keyra hraðann upp gegn Akureyri, eins og sást þegar liðið gerði áhlaup í seinni hálfleik.

Þá var markvarslan lítil sem engin framan af þangað til að Pálmar kom í markið og varði hann vel á köflum, sérstaklega frá Garðari Má Jónssyni, hornamanni Akureyrar, sem lét Pálmar verja frá sér þrisvar í röð úr úrvals færum.

Hvað gerist næst?

Akureyri er komið á blað og á framundan leik gegn Fram á útivelli. Liðið vill væntanlega byggja á góðri frammistöðu í leiknum gegn Aftureldingu. Mosfellingar fá hins vegar ÍBV í heimsókn sem geta jafnað Aftureldingu að stigum með sigri.

Einar Andri Einarsson þjálfar lið Aftureldingar í Olísdeild karlavísir/bára

Einar Andri: Sóknin brást okkur

„Í fyrsta lagi mikil vonbrigði að hafa tapað og í öðru lagi þá fær Akureyri mikið hrós,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar í leikslok. Hann var ánægður með varnarleik liðsins en sóknin fær falleinkun hjá honum í dag.

„Ég er gríðarlega ósáttur við sóknarleikinn hjá okkur í dag. Við spilum mjög góðan varnarleik, allavega í seinni hálfleik, fáum ekki á okkur nema tvo mörk á fyrstu 16 mínútum hálfleiksins. Það er sóknin sem brást okkur,“ segir Einar Andri.

Afturelding var í eltingarleik allan tímann þó að þeir hafi aldrei misst Akureyri mjög langt fram úr sér. Í stöðunni 20-17 náði liðið að jafna 20-20 og virtist þá vera eins og gestirnir myndu snúa taflinu sér í vil.

„Mér fannst bylgjan vera með okkur. Mér fannst við vera búnir að spila þannig varnarleik í seinni hálfleiknum að viðvorum komnir inn í leikinn og áttum möguleika en við vorum að klikka á færum og fara illa með stöður,“ segir Einar Andri sem hrósar Akureyri fyrir mikla baráttu í leiknum og segir hann að heimamenn hafi átt sigurinn fyllilega skilinn.

Fyrir leikinn var Afturelding taplaust á góðu róli í efstu sætunum en Akureyri í næstneðsta sæti á markatölu, með 0 stig. Einar Andri segir þó að ekkert vanmat hafi verið hjá gestunum. Þeir hafi verið í sömu stöðu og Akureyri á síðasta tímabili.

„Við vorum ekkert að horfa á töfluna. Við vissum og lögðum þetta þanig upp að þetta yrði erfiðasti leikurinn okkar fram að þessu. Kannski sérstaklega í ljósi þess í hvaða stöðu þeir voru. Við vorum í svipaðri stöði í fyrra og vitum alveg hvað við komum með inn í leikina þá þannig að það var súrt að við komum ekki af meiri krafti,“ segir Einar Andri.

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.vísir/getty

Sverre: Hafði ekki tíma til þess að vera smeykur

 „Ég er stoltur af liðinu mínu og þessum 60 mínútum.  Þetta var til fyrirmyndar,“ sagði skælbrosandi Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar eftir sigurinn á Aftureldingu í dag.

Liðið náði þar með sínum fyrstu stigum á töfluna og var Sverrir alveg með á hreinu hvað skilaði stigunum tveimur í hús.

Stemmning og liðsheild. Við náum að koma með þetta aukalega inn í þetta sem við erum búnir að ræða lengi. Menn tóku þessa heimavinnu mjög alvarlega og skiluðu þessu greinilega inn á parketinu í dag,“ segir Sverre.

Hann vildi reyndar ekki greina frá því hvað þetta aukalega væri þegar blaðamaður spurði hann út í hverju þetta aukalega hafi falist.

„Það er bara þetta aukalega. Þetta er svona það aukalega í uppskrift sem maður segir ekkert frá. Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka með okkur í hverjum leik,“ segir Sverre.

Liðið hafði tapað öllum leikjunum hingað til í deildinni en aðspurður hvað hafi breyst í dag sagði Sverre að liðið hefði unnið betur sem heild í dag, sérstaklega í vörninni. Liðið fékk á sig 22 mörk í dag en hefur verið að fá á sig hátt í 30 mörk í leik hingað til.

Afturelding náði reyndar mjög góðum kafla í seinni hluta hálfleiksins og náði að jafna 20-20. Útlit var fyrir að þeir myndu ná að snúa leiknum sér í vil. Það gerðist hins vegar ekki og Akureyri skoraði fimm mörk gegn tveimur mörkum Aftureldingar á síðustu mínútunum.

„Ég hafði ekki tíma til þess að vera smeykur. Maður var bara  að reyna að hugsa hvernig við gætum náð þessu aftur okkar megin en auðvitað fer um mann, ég var ekki rólegur. Maður hefur trúnna og mér fannst við eiga þetta skilið. Við lögðum rosalega mikið í þetta og yfir sextíu mínútur vorum við bara betra liðið, ég held að ég sé ekkert að mógða neinn þegar ég segi það,“ segir Sverre.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira