Vítaspyrna forgörðum í markalausum toppslag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mahrez mokar honum yfir markið úr vítaspyrnunni.
Mahrez mokar honum yfir markið úr vítaspyrnunni. vísir/getty
Liverpool og Manchester City gerðu markalaust jafntefli í toppslagnum í ensku úrvalsdeildinni er liðin mættust á Anfield í kvöld.

Leikurinn var afar bragðdaufur og afar fá færi litu dagsins ljós. Sóknarleikur beggja liða var ekki upp á marga fiska og ljóst að bæði lið voru ekki tilbúin að taka miklar áhættur.

Man. City fékk þó gullið tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn fjórum mínútum fyrir leikslok er þeir fengu vítaspyrnu. Virgil Van Djik braut þá klaufalega á Leroy Sane.

Á punktinn steig Riyad Mahrez, sem hafði fyrir leikinn í kvöld ekki skorað á Anfield, en það breyttist ekki í kvöld. Vítaspyrna hans himinhátt yfir markið. Niðurstaðan markalaust jafntefli.

Liðin eru því bæði jöfn á toppi deildarinnar ásamt Chelsea en liðin þrjú öll með 20 stig eftir átta umferðir; City efst á markatölu, Chelsea númer tvö og Liverpool númer þrjú.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira