Enski boltinn

Dwight Yorke vill verða stjóri Birkis

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Yorke var um áraraðir í herbúðum Aston Villa
Yorke var um áraraðir í herbúðum Aston Villa vísir/getty
Fyrrum framherjinn Dwight Yorke segist vera búinn að sækja um starf knattspyrnustjóra Aston Villa. Hann telur sig geta komið með hugarfar sigurvegara inn í liðið.

Yorke spilaði fyrir Villa á árunum 1989 til 1998 áður en hann fór til Manchester United.

Steve Bruce var rekinn frá Aston Villa á miðvikudag og sagði bráðabirgðastjórinn Kevin MacDonald við SkySports í dag að félagið væri nú þegar farið að skoða menn í starfið. Hann bjóst við því að nýr maður væri kominn í starfið áður en komandi landsleikjahléi lýkur.

Yorke hefur ekki starfað sem aðalþjálfari, hans eina reynsla af þjálfun er sem aðstoðarþjálfari Trínidad og Tóbagó frá 2009-2010.

„Þetta er starf sem ég hef hundrað prósent áhuga á og ég hef látið það skýrt í ljós að ég vil ræða við félagið. Hvort það gerist eða ekki mun ég bíða við símann,“ sagði Yorke við Sky.

„Ég sendi ferilskrána inn og er að reyna að komast í samband við stjórnarformanninn svo ég er að gera allt sem ég get gert.“

„Ég hef horft upp á félagið fara úr því að vera virkilega sterkt á heimsvísu og niður á þann stað sem það er í dag. Mér finnst félagið þurfa á einhverju nýju að halda.“

Yorke segist hafa stuðning fyrrum knattspyrnustjóra síns Sir Alex Ferguson. Hann sótti einnig um starf stjóra Villa áður en Steve Bruce var ráðinn.

„Ég spilaði fyrir félagið og skil það og veit hverju stuðningsmennirnir búast við. Ég tel ég geti komið sigurhugarfari aftur inn í félagið,“ sagði Dwight Yorke.

Birkir Bjarnason er á mála hjá Aston Villa.


Tengdar fréttir

Thierry Henry nýr stjóri Birkis?

Thierry Henry gæti orðið nýr knattspyrnustjóri Birkis Bjarnasonar en hann er efstur á óskalista forráðamanna Aston Villa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×