Körfubolti

Arnar: Vinnubrögð sem voru gjörsamlega galin

Böðvar Sigurbjörnsson skrifar
Arnar á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar á hliðarlínunni í kvöld. vísir/bára
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, sagðist aðspurður hvað hann hefði sagt við sína menn í hálfleik í sigrinum gegn ÍR að hann hefði einfaldlega ekki undirbúið lið sitt undir það að mæta 2-3 svæðisvörn gestanna.

„Ég stóð mig ekki í undirbúningnum og við vorum ekki tilbúnir fyrir 2-3 svæði. Þannig að við vorum óöruggir í upphafi og það smitaðist inn í vörnina, við eigum ekki að að fá á okkur 55 stig í hálfleik. Þess vegna er ég gríðarlega ánægður með það hvernig þetta fór að lokum,” sagði Arnar í kvöld.

 

Þjálfari Stjörnunnar var ekki ánægður með kollega sinn hjá ÍR og tók ekki í hönd hans að leik loknum en er ÍR spilaði æfingarleik á dögunum sem Arnar ætlaði að sjá þá var honum hent út úr húsinu.

„Það er greinilegt að í leiknum sem ÍR-ingarnir hentu mér út í voru þeir að æfa svæðisvörn. Ég er því rosalega ánægður að með að vinna eftir vinnubrögð þjálfara ÍR-inga þar sem hann heldur lokaðan æfingaleik þar sem mér og einni annarri manneskju sem var í íþróttahúsinu var vísað út."

„Það voru vinnubrögð sem voru gjörsamlega galin og þess vegna er ég sérstaklega ánægður með þennan sigur okkar í kvöld.”

Þrátt fyrir að vera ósáttur við þjálfarann hrósaði Arnar leik ÍR liðsins.

„Þeir voru drullu flottir í kvöld, þó ég sé ósáttur við þessi vinnubrögð hans þá eiga þeir hrós skilið því þeir voru flottir,“ sagði Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar að leik loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×