Körfubolti

Logi: Ég hef sett svona skot nokkrum sinnum niður áður

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Logi var frábær í kvöld.
Logi var frábær í kvöld. vísir/ernir
Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur var að vonum ánægður með sigur sinna manna gegn erkifjendum sínum og nágrönnum úr Keflavík í Dominos deild karla í körfubolta.

 

„Já við vissum að þetta yrði hörku rimma. Keflvíkingar voru góðir í kvöld og við vissum að við þyrftum að stíga þetta upp á næsta level ef við ætluðum að vinna þetta í lokin. Við spiluðum góðan varnarleik í seinni hálfleik og misstum þá ekkert of langt frá okkur og þá vitum við að við getum alltaf unnið í þessu húsi, sama á móti hverjum. Við tókum tækifærið þegar það gafst og kláruðum þetta með stæl,“ sagði Logi.

 

Njarðvík var undir nánast allan leikinn þangað til í lokaleikhlutanum en þá hrukku þeir í gang.

 

„Það er það sem við viljum vera. Við viljum vera lið sem klárar leikina á lokasekúndunum. Þegar það eru jafnir leikir er oft auðvelt að koðna niður og fara í felur en við fórum ekki í felur.“

 

Logi setti niður tvær risa stórar þriggja stiga körfur á lokamínútunum sem fór langleiðina að því að tryggja Njarðvíkingum sigurinn í kvöld.

 

„Já nokkrum sinnum. Ég bíð bara eftir svona stundum og þegar þau koma, þá tek ég þau.“

 

Logi er í kannski öðru hlutverki en hann hefur verið í hjá Njarðvík. Hann byrjaði á bekknum og kom inn á og er það líklega það sem koma skal hjá honum í vetur.

 

„Ef við erum breiðir eins og við erum núna, þá munum við skipta mínútunum betur. Ég hef verið í öllum hlutverkum á mínum ferli sem atvinnumaður og í landsliðinu þannig ég tek því sem kemur og nýti mínúturnar sem ég fæ og er ferskari fyrir vikið.“

 

Keflvíkingar voru heilt yfir betri í leiknum í kvöld en Njarðvík hélt þó alltaf í við granna sína. Það var afar mikilvægt að sögn Loga.

 

„Mér fannst við gefa þeim svolítið opin skot í fyrri hálfleik. Vorum ekki nógu góðir í vörn þá. Fáum á okkur 48 stig. Seinni hálfleikurinn var betri. Við erum auðvitað að slípa okkur saman eins og allir aðrir í deildinni. Mér leist mjög vel á marga kafla hjá okkur í dag, sérstaklega í 4. leikhluta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×