Erlent

36 stúlkur barðar fyrir að kvarta undan kynferðislegri áreitni

Samúel Karl Ólason skrifar
Indverskar stúlkur fylgjast með fræðslu um kynferðislegt áreitir. Þetta eru ekki stúlkurnar sem ráðist var á.
Indverskar stúlkur fylgjast með fræðslu um kynferðislegt áreitir. Þetta eru ekki stúlkurnar sem ráðist var á. EPA/RAMINDER PAL SINGH
36 stúlkur á aldrinum tíu til fjórtán ára, þurftu að leita aðstoðar á sjúkrahúsi á Indlandi eftir að hópur táningsdrengja og foreldrar þeirra gengu í skrokk á þeim eftir að stúlkurnar kvörtuðu undan kynferðislegri áreitni drengjanna. Sex drengir og ein kona hafa verið handtekin vegna árásarinnar.

Lögreglan og vitni segja, samkvæmt Guardian, að stúlkurnar hafi verið að leik á íþróttavelli nærri heimavistarskóla þeirra á laugardagskvöldið þegar hópur stráka byrjaði að angra þær. Drengirnir munu hafa kallað á stúlkurnar og áreitt þær kynferðislega.



Þær svöruðu drengjunum um hæl og þurftu jafnvel að ýta þeim frá sér. Að endingu yfirgáfu þeir svæðið.

Nokkrir af drengjunum sneru þó aftur um tuttugu mínútum síðar og þá með foreldra sína með sér. Þar að auki báru þau prik og rör.

Ein stúlkan segir þær hafa verið dregnar um á hárinu og gengið hafi verið í skrokk á þeim.

„Við vorum algerlega óvopnaðar og gátum ekki varið okkur. Ég sá margar vinkonur mínar liggja í jörðinni og gráta vegna sársauka,“ sagði Gudia. Hún sagði drengina hafa verið reiða yfir því að stúlkurnar hefðu ekki brugðist vel við ágengni þeirra og áreiti.

Hún segir einnig að drengirnir hafi verið að eltast við þær um nokkuð skeið og þær hafi lengi reynt að kvarta yfir þeim en án árangurs.

Flestar voru þær útskrifaðar af sjúkrahúsi án alvarlegra meiðsla. Hins vegar eru þær óttaslegnar um að aftur verði ráðist á þær og hefur þeim verið boðin áfallahjálp.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×