Enski boltinn

Jesus ósáttur með að fá ekki að taka vítið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mahrez setti vítaspyrnuna yfir markið
Mahrez setti vítaspyrnuna yfir markið vísir/getty
Gabriel Jesus er ekki sáttur með að Pep Guardiola hafi komið í veg fyrir að hann tæki vítaspyrnu í leik Manchester City og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Manchester City fékk vítaspyrnu undir lok stórleiksins þegar Virgil van Dijk felldi Leroy Sane innan vítateigs. 

Brasilíski framherjinn gerði það ljóst að hann vildi fá að taka spyrnuna en knattspyrnustjórinn Guardiola sendi skilaboð inn á völlinn að hann vildi að Riyad Mahrez tæki spyrnuna.

Guardiola sagði eftir leikinn að hann hefði verið ánægður með vítaspyrnur Mahrez á æfingum og þess vegna viljað að hann tæki spyrnuna. Sergio Aguero er vítaskytta City en hann var á bekknum.

Mahrez hafði misnotað fjórar af síðustu sjö vítaspyrnum sínum áður en hann steig á punktinn í gær og hann setti spyrnuna yfir markið. Leiknum lauk því með markalausu jafntefli.

Guardiola sagðist ætla að biðja Jesus afsökunnar, en framherjinn ungi var ekki sáttur.

„Ég er augljóslega ekki sáttur. Ég er búinn að vera að æfa mig í vítaspyrnum alveg eins og Riyad,“ sagði Jesus.

„Ég hefði viljað taka spyrnuna. Ég var fullur sjálfstraust og var þess vegna ekki sáttur með að fá ekki að taka vítið.“

„En það er mikilvægt að við töpuðum ekki. Pep talaði við mig, þetta er hluti af fótboltanum, og ég mun styðja Riyad ef stjórinn velur hann aftur.“

City og Liverpool eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar ásamt Chelsea.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×