Enski boltinn

Lampard segir að Terry verði fullkominn knattspyrnustjóri

Anton Ingi Leifsson skrifar
Félagarnir á góðri stundu.
Félagarnir á góðri stundu. vísir/getty
Frank Lampard, stjóri Derby og goðsögn hjá Chelsea, segir að John Terry muni verða frábær stjóri í framtíðinni því að hann hefur allt sem þarf í að verða góður stjóri.

Terry tilkynnti um helgina að skórnir hjá honum væru komnir upp í hillu. Enski miðvörðurinn lék síðast með Aston Villa á síðustu leiktíð en hafði ekki leikið með neinu liði á þessari leiktíð.

„Það er enginn vafi á því. Hann hefur sagt það nú þegar. John, með þennan karakter og persónuleika, þá já. Við vitum að hann gerir það,” sagði Lampard aðspurður hvort að Terry myndi snúa sér að þjálfun.

„Hann var leiðtogi innan sem utan vallar og ég held að hann verði einnig leiðtogi þar sem hann er þjálfari, stjóri eða hvað sem hann kýs að gera.”

„Hann er drífandi. Hann vill læra og er sjálfur með mikla þekkingu. Þetta mun ganga hjá John því hann er með persónuleikann í þetta,” sagði Lampard sem hrósaði ferli Terry:

„Þetta er einn besti ferill í enskum fótbolta frá enskum leikmanni, án nokkurs vafa,” sagði Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×