Innlent

Vill skoða lög og reglur um einangrunarvistun

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra útilokar ekki breytingar á lögum og reglum um einangrunarvist og hefur kallað eftir upplýsingum frá lögreglu og embætti ríkislögmanns vegna þessa. Hún segir umhugsunarvert hvernig einangrunarvistun er beitt við rannsókn mála hér á landi.

Ráðherra upplýsir þetta í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag en hún segir tilefnið vera niðurstaða hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hún segir brýnt að koma í veg fyrir að grunaðir menn, þar sem sekt hefur ekki verið sönnuð, sæti einangrunarvist í langan tíma.

Hún hefur því kallað eftir upplýsingum frá lögreglu um stöðu mála meðal annars hversu oft lögreglan hefur farið fram á dómsúrskurð um einangrunarvist og á hvaða forsendum.

„Það er auðvitað til umhugsunar hvernig einangrunarvistun er beitt við rannsókn mála á rannsóknarstigi. Ég vil samt árétta að það hefur margt breyst til batnaðar í löggjöf að þessu leyti. Við höfum skýrari ramma og reglur um beitingu þessara þvingunarúrræða. Það er t.d. í lögum í dag heimilt að vista menn í einangrun í allt að fjórar vikur og það kann að vera tilefni til að skoða það hvort það sé eðlilegt þ.e. hvort verið sé að beita slíku fullum fetum,“ segir Sigríður.

Hún útilokar ekki breytingar á lögum og reglum hvað þetta varðar.

„Fyrst og fremst er ég að kalla eftir því að fá svona upplýsingar þannig að ég fái einhverja tilfinningu fyrir því í hvað miklu mæli er verið að beita einangrunarvist sem úrræði í þágu rannsóknarhagsmuna og þannig að menn fái einhverjar tilfinningu fyrir því hvort það þurfi að breyta einhverjum lögum eða verklagi,“ segir Sigríður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×