Innlent

Farþegi neitaði að yfirgefa lögregluport og þjófar slettu málningu

Birgir Olgeirsson skrifar
Höfð voru afskipti af rúmlega tíu ökumönnum í nótt.
Höfð voru afskipti af rúmlega tíu ökumönnum í nótt. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu neyddist til að færa farþega leigubíls í fangaklefa því hann neitaði að yfirgefa port lögreglustöðvarinnar og veittist að lögreglumanni sem ætlaði að vísa honum burt. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar þar sem farið er yfir verkefnið gærdagsins og næturinnar.

Maðurinn var færður á lögreglustöð á fimmta tímanum í morgun því hann hafði neitað að greiða leigubílstjóra ökugjaldið. Á lögreglustöðinni greiddi maðurinn farið og var leyft að fara. Hann vildi hins vegar ekki yfirgefa port lögreglustöðvarinnar og veittist að lögreglumanni sem reyndi að vísa honum burt.

Hann neitaði að veita lögreglu persónuupplýsingar og fór ekki að fyrirmælum hennar. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu á meðan ástand hans batnar.

Rétt eftir miðnætti barst lögreglunni tilkynning um þjófnað, líkamsárás og eignaspjöll á hóteli í miðborginni. Starfsmaður hótelsins kom auga á menn sem voru að bera út verkfæri, málningu og fleira. Hann hafði afskipti á mönnunum sem brugðust ókvæða við og réðust á starfsmanninn.

Lögreglan segir mennina hafa kastað málningardósum og slettist málning á bifreið og fleira. Mennirnir komust undan og er málið til rannsóknar.

Rétt fyrir klukkan eitt í nótt barst tilkynning um líkamsárás á veitingahúsi í miðborginni. Tveir menn voru handteknir, grunaðir um árás og fóru ekki að fyrirmælum lögreglu. Þeir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Um svipað leyti barst lögreglunni ósk um aðstoð á hóteli í austurborg Reykjavíkur. Þar hafði ölvaður maður áreitt starfsfólk og gesti en hann var færður í fangageymslu lögreglu.

Höfð voru afskipti af rúmlega tíu ökumönnum sem annað hvort höfðu ekið of hratt eða undir áhrifum vímugjafa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×