Innlent

Aðgerðum lokið við Goðafoss

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifa
Frá vettvangi í dag
Frá vettvangi í dag Vísir/Tryggvi Páll Tryggvason
Aðkomu björgunarsveita er lokið á vettvangi við Goðafoss en þeim lauk um klukkan 15:30 og eru björgunaraðilar eru á leiðinni til síns heima. Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við fréttastofu. <
 
Búið er að ná aðilanum úr Skjálfandafljóti og verið að flytja hann á Sjúkrahúsið á Akureyri. Tildrög slyssins eru enn óljós en unnið er að rannsókn. Talið var í fyrstu að maðurinn hefði fallið í ána en síðar kom í ljós að svo var ekki.  

Um var að ræða erlendan ferðamann sem var í hóp og var ferðafélaga hans farið að lengja eftir honum. Maðurinn fannst á klettum við fljótið með höfuðáverka. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til öryggis vegna aðgerðanna. Lögreglumaður á vettvangi segir að þetta hafi verið umfangsmiklar aðgerðir sem hafi þó tekið skamman tíma. Verið er að flytja manninn á sjúkrahúsið á Akureyri.

Hátt í 50 björgunarsveitarmenn úr Eyjafirði og víðar af Norðurlandi eystra voru sendar af stað á fyrsta forgangi. Davíð kveðst ekki geta veitt frekari upplýsingar að svo stöddu og vísar á lögregluna á Norðurlandi eystra.
 
Mikill viðbúnaður var á staðnum þar sem fyrsta tilkynning gaf til kynna að maður hefði lent í vatninu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×