Bíó og sjónvarp

Cage í hefndarhug

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Nicholas Cage vílar ekki fyrir sér að leika í lélegum bíómyndum en sýnir nú loksins aftur sínar bestu hliðar þegar hann gengur með vélsög milli bols og höfuðs á brjáluðum illmennum í hefndardramanu Mandy í Bíó Paradís í október.
Nicholas Cage vílar ekki fyrir sér að leika í lélegum bíómyndum en sýnir nú loksins aftur sínar bestu hliðar þegar hann gengur með vélsög milli bols og höfuðs á brjáluðum illmennum í hefndardramanu Mandy í Bíó Paradís í október.
Leikarinn Nicolas Cage er skemmtilega skrýtið krækiber í helvíti Hollywoodsins. Ósmeykur, ef ekki beinlínis kærulaus, hefur hann flakkað á milli kvikmyndagreina. Leikið í hádramatískum myndum og heiladauðum hasar. Myndum sem áttu ekkert erindi í kvikmyndahús og úrvalsmyndum sem margar hverjar eru fyrir löngu orðnar sígildar.

Mögulega er Cage einfaldlega meðvitaður um að það eru engin lítil hlutverk til, bara litlir leikarar. Í það minnsta virðist ekkert hlutverk of ómerkilegt fyrir Cage og engin hárgreiðsla of hallærisleg. Stundum bjargar hann því sem bjargað verður og stundum gerir hann illt verra.

Burtséð frá öllu þessu, brokkgengum ferlinum og sturlaðri ferilskránni, verður samt aldrei af honum tekið að hann er Nicolas Cage og einhvern veginn er nú alltaf auðveldara að elska hann en hata þótt sumar myndir verði aldrei hægt að fyrirgefa; The Wicker Man, Ghost Rider og Captain Corelli’s Mandolin svo einhverjar séu nefndar.



1997 Nicolas Cage Stars In The New Movie "Face Off" (Photo By Getty Images)
Cage hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang, fyrir Adaptation 2003 og Leaving Las Vegas 1996 þegar hann stóð uppi sem sigurvegari. Ætli það segi síðan ekki allt sem segja þarf um hlutfall góðra mynda og vondra á ferli hans að hann hefur verið tilnefndur sjö sinnum til skammarverðlaunanna, and-óskarsins, Golden Raspberry Awards, fyrir hvorki meira né minna en ellefu myndir:

The Wicker Man (2007), Ghost Rider, National Treasure: Book of Secr­ets, Next (2008), Drive Angry, Season of the Witch, Trespass (2012), Ghost Rider: Spirit of Vengeance, Seeking Justice (2013), Left Behind (2015) og Snowden (2017).

Misskilinn dugnaður

Sjálfur hefur Cage sagt í viðtölum að það fari í taugarnar á honum þegar því er haldið fram að hann samþykki að leika í hverju sem er og leiki í of mörgum myndum bara til þess að geta borgað skuldir sínar. Hann sé bara Bandaríkjamaður þeirrar gerðar að hann trúi á gildi vinnunnar. „En þegar kvikmyndaleikur er annars vegar er maður einhverra hluta vegna gagnrýndur fyrir að vinna.“

Nicholas Cage er 54 ára gamall og hefur leikið í rúmlega 90 kvikmyndum á þeim 37 árum sem ferill hans teygir sig yfir. Fyrsta kvikmyndahlutverk hans var í Fast Times at Ridgemont High og þá kallaði hann sig Nicholas Coppola, enda bróðursonur leikstjórans áhrifamikla Francis Ford Coppola.

Sailor Ripley, sem setti allt sitt sjálfstraust á snákaskinnsjakkann sinn og Elvis, í Wild at Heart er ein eftirminnilegasta persóna Cage.
Cage stimplaði sig síðan almennilega inn ári síðar í hlutverki pönkarans Randy í Valley Girl. Það sama ár fékk hann að spreyta sig undir stjórn Francis frænda í Rumble Fish, þar sem Matt Dillon og Mickey Rourke voru í aðalhlutverkum. Coppola tefldi litla frænda aftur fram 1984 og þá í stóru hlutverki á móti sjálfum Richard Gere í The Cotton Club.

Þótt Cage léti illa að stjórn Coppola unnu þeir saman eina ferðina enn 1986 í gamanmyndinni Peggy Sue Got Married þar sem Cage var í öðru aðalhlutverkanna á móti einni vinsælustu leikkonu þess tíma, Kathleen Turner. Í kjölfarið fékk Cage hlutverk í Raising Arizona þeirra Coen-bræðra og hjá Norman Jewison í Moonstruck þar sem hann lék á móti Cher.

Ferillinn var þarna kominn á hvínandi siglingu og Cage orðinn einn áhugaverðasti ungi leikarinn í Hollywood.

Hefndin er blóðug

Leikstjóranum Panos Cosmatos virðist hafa tekist að kippa Cage í gírinn með spennutryllinum Mandy. Myndin verður frumsýnd á sérstakri miðnætursýningu í Bíó Paradís 12. október en fyrstu dómar að utan eru lofsamlegir og þá er það ekki síst Cage sem er hrósað.

Getty/Samir Hussein
Myndin gerist 1983 og í henni leikur Cage skógarhöggsmanninn Red Miller og Andrea Riseborough leikur eiginkonu hans, Mandy. Þau búa ein, afskekkt og hamingjusöm úti í skógi þar sem þau una hag sínum vel við lestur fantasíubókmennta.

Veröld þeirra hrynur þegar truflaður trúarsöfnuður ræðst inn á heimilið og rænir Mandy. Við þetta gengur Red af göflunum, tekur tæki sín og tól (vélsög) og heldur í blóðugan hefndarleiðangur.

Cage er vitaskuld einkar lagið að bregða brjálæðisglampa í augu og þykir fara á kostum í hlutverki sínu þegar hann virkjar allar sínar klikkuðustu og ýktustu hliðar með miklum glæsibrag.

Tónlistin í Mandy hefur einnig fengið mikið lof en hún er hinsta verk kvikmyndatónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar sem lést fyrir skömmu. Kraftmiklir og dáleiðandi tónar Jóhanns eru sagðir falla fullkomlega að myndinni. Að þeir keyri upp stemninguna og ráði miklu um að myndin haldi áhorfendum í álögum frá upphafi til enda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×