Innlent

Sömdu um fjármögnun Heimilisfriðs til eins árs

Atli Ísleifsson skrifar
Andrés Proppé Ragnarsson sérfræðingur og Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Andrés Proppé Ragnarsson sérfræðingur og Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. Mynd/Stjórnarráðið
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra og Andrés Proppé Ragnarsson sérfræðingur undirrituðu í dag nýjan samstarfssamning velferðarráðuneytisins og verkefnisins Heimilisfriðs ,meðferðarúrræðis fyrir einstaklinga sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

Sálfræðingar hafa veitt úrræðið um árabil samkvæmt samningi við stjórnvöld, en úrræðið gekk áður undir heitinu Karlar til ábyrgðar. Gildistími samningsins er til eins árs.

Í frétt á vef velferðarráðuneytisins segir að í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2016 til 2019 sé kveðið á um endurskoðun starfseminnar sem hafi að markmiði að verkefnið bjóði upp á sérhæfða þjónustu fyrir karla og konur sem beitt hafi ofbeldi í nánum samböndum og að efnt verði til útboðs um þjónustuna.

„Árið 2017 var gengið til samninga við verkefnið Heimilisfrið en þaðan barst eina umsóknin í opnu ferli sem Ríkiskaup höfðu umsjón með fyrir hönd ráðuneytisins.

Gerður var samstarfssamningur til eins árs sem rann út um mitt ár 2018. Heimilisfriður býður gerendum, körlum og konum, upp á meðferð með einstaklingsviðtölum og hópmeðferð. Í meðferðinni er miðað að því að gerendur viðurkenni ábyrgð á hegðun sinni og vinni að breytingum. Lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja og sjái sjálfur um að panta sér viðtal. Undantekningar á þessari meginreglu eru t.d. þegar barnaverndarnefndir, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til Heimilisfriðs. Heimilisfriður býður einnig upp á þjónustu á Norðurlandi,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×