Innlent

Vilja þyrlupall í Vestmannaeyjum

Atli Ísleifsson skrifar
Um 4.200 manns búa í Vestmannaeyjum.
Um 4.200 manns búa í Vestmannaeyjum. Vísir/Getty
Fimm þingmenn úr þremur flokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um að samgönguráðherra geri ráðstafanir til að Isavia geti hannað og komið fyrir þyrlupalli á Heimaey. Verði það gert til að auka enn frekar öryggi í sjúkra- og neyðarflugi til Vestmannaeyja.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar sem gerir ráð fyrir að verkinu verði lokið ekki síðar en árið 2020.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunnar kemur fram að sjúkraflug til Vestmannaeyja séu um hundrað á ári. Þau séu þó mörgum annmörkum háð. Um tvær klukkustundir tekur að undirbúa og koma sjúkraflugvél til Eyja frá því að útkall kemur og þar til vélin lendir í Eyjum.

Krefjandi aðstæður

„Veður breytast eins og hendi sé veifað í Vestmannaeyjum og það gerist að sjúkraflugvél sem lögð er af stað til Eyja á ekki möguleika á að lenda þar. Þar getur verið mjög misvindasamt, skýjahæð undir 500 fetum og oft krefjandi aðstæður sem sjúkraflugvél ræður ekki við. Við þær aðstæður þarf að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja sjúka eða slasaða til Eyja,“ segir í greinargerðinni.

Meðflutningsmenn eru Sjálfstæðismennirnir Vilhjálmur Árnason og Páll Magnússon, Píratinn Smári McCarthy og Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Öll eru þau þingmenn Suðurkjördæmis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×