Enski boltinn

Bruce Grobbelaar hafði drepið mann áður en hann kom til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruce Grobbelaar vann þrettán titla sem markvörður Liverpool þar af enska meistaratitilinn sex sinnum.  Hér fagnar hann Englandsmeistaratitlinum 1990 með mexíkanskan hatt á höfðinu.
Bruce Grobbelaar vann þrettán titla sem markvörður Liverpool þar af enska meistaratitilinn sex sinnum. Hér fagnar hann Englandsmeistaratitlinum 1990 með mexíkanskan hatt á höfðinu. Vísir/Getty
Bruce Grobbelaar hafði barist í stríði, drepið þar andstæðinga og misst þrjá vini sína þegar hann kom til Liverpool í byrjun níunda áratugsins. Grobbelaar segir að fótboltinn hafi bjargað sér.

Bruce Grobbelaar er einn eftirminnilegasti og sigursælasti markvörðurinn í sögu Liverpool. Hann hefur nú komið fram og sagt frá viðburðarríkri ævi sinni í viðtali við BBC.

Bruce Grobbelaar er nú sextugur en hann var markvörðurinn í síðasta Englandsmeistaraliði Liverpool vorið 1990. Grobbelaar lék alls í þrettán ár með Liverpool, spilaði 440 leiki og vann þrettán titla á Anfield.

Grobbelaar barðist í Kjarrstríðinu í Ródesíu á áttunda áratugnum og segist ennþá vakna í köldu svitabaði vegna hryllilegra minninga úr þessu borgarastríði.





„Þú ert ekki sami maður eftir að hafa farið í gegnum slíkt. Þú verður líka að lifa með afleiðingunum alla ævi,“ sagði Bruce Grobbelaar við BBC.

Hann segist hafa sjálfur þurft að drepa andstæðing sinn í þessu stríði með því að skjóta hann af stuttu færi og að hann hafi einnig misst þrjá góða vini sína.

Bruce Grobbelaar ræðir margt í þessu viðtali. Hann talar um hagræðingu úrslita, Heysel-harmleikinn, þegar einhver kastaði pílu í hann í leik, einstaka leið Liverpool að því að láta leikmenn fá medalíur sínar og hvernig regnhlíf kom næstum því í veg fyrir að hann yrði leikmaður Liverpool.

„Í gegnum árin þá hef ég verið mjög heppinn að forðast það að lenda í þunglyndi vegna þessa hryllilega stríðs og það er aðallega vegna þess að fótboltinn bjargaði lífi mínu,“ sagði Bruce Grobbelaar.

„Þegar ég kom úr hernum þá gat ég leitað í fótboltann sem hjálpaði mér að dreifa huganum frá þessu hryllilega stríði,“ sagði Grobbelaar en hvað með þessa regnhlíf?





Grobbelaar eyddi árunum 1981 til 1994 á Anfield en fór langt með því að klúðra tækifærinu til að spila fyrir Liverpool þegar Bob Paisley, þáverandi knattspyrnustjóri Liverpool, kom til að sjá hann spila með Crewe. Grobbelaar var þá á láni hjá Crewe frá kanadíska félaginu Vancouver Whitecaps.

„Ég var að spila með Crewe á móti York City og þeir Bob Paisley og Tom Saunders komu til að horfa á leikinn,“ rifjar Grobbelaar upp.

„Þegar ég var að hita upp þá sá ég að stjórinn minn hristi hausinn. Ég spurði hvað væri að? Hann svaraði að þessir tveir mikilvægu menn væru mættir til að sjá mig spila. Eftir að þeir sá upphitunina þá fóru þeir og horfðu á leik Stoke City og Port Vale í staðinn,“ sagði Grobbelaar.

„Kannski var ástæðan að ég var að hita upp með regnhlíf af því að það var rigning,“ sagði Grobbelaar.

Hann endaði engu að síður hjá Liverpool árið eftir og vann ensku deildina alls sex sinnum auk þess að verða þrisvar enskur bikarmeistari og vinna Evrópukeppni meistaraliða. Frægastur er hann kannski fyrir spagettí fæturnar sínar í vítakeppninni í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða 1984.

Það má lesa allt viðtalið hér og sjá vítakeppnina frá 1984 með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×