Enski boltinn

Klopp hafði gaman af nýja útilitinu hjá Roberto Firmino

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alberto Moreno gerir smá grín að Roberto Firmino á æfingu Liverpool.
Alberto Moreno gerir smá grín að Roberto Firmino á æfingu Liverpool. Vísir/Getty
Roberto Firmino er kominn á fulla ferð á ný með liðsfélögum sínum Liverpool en Brasilíumaðurinn þarf hins vegar að æfa með nýjan aukahlut. Jürgen Klopp hafði mjög gaman af því.  

Roberto Firmino meiddist illa á vinsta auga eftir að Tottenham maðurinn Jan Vertonghen potaði í það í leik Liverpool og Tottenham á Wembley í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Firmino gat lítið æft í vikunni vegna meiðslanna og byrjaði á bekknum í Meistaradeildarleiknum á móti Paris Saint Germain. Roberto Firmino kom samt inná og tryggði Liverpool 3-2 sigur í leiknum með mjög laglegu marki.

Þegar Roberto Firmino mætti á sína fyrstu æfingu eftir leikinn þá mætti hann með sérstök hlífðargleraugu til að koma í veg fyrir frekar augnapot.

Það má sjá myndband af þessu hér fyrir neðan en það má sjá að liðsfélagar hans og Jürgen Klopp skemmta sér mjög mikið yfir þessu nýja útliti Brassans. Roberto Firmino tekur líka öllu gríni vel.



Jürgen Klopp stóðst ekki freistinguna og skaut á stjörnuleikmann sinn: „Edgar Davis er kominn til baka,“ sagði Klopp hlæjandi.

Edgar Davis er fyrrum leikmaður Juventus, Barcelona, AC Milan, Tottenham og Ajax en hann spilaði 74 landsleiki fyrir Holland á árunum 1994 til 2005 og var um tíma talinn einn besti miðjumaður heims.

Edgar Davis spilaði alltaf með svona hlífðargleraugu eins og Roberto Firmino mætti með á æfinguna.

Liverpool mætir Southampton á Anfield á morgun í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Liverpool hefur unnið fimm fyrstu leiki sína með markatölunni 11-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×