Barcelona tapaði sínum fyrstu stigum á tímabilinu gegn Girona

Barcelona töpuðu sínum fyrstu stigum á tímabilinu
Barcelona töpuðu sínum fyrstu stigum á tímabilinu Vísir/Getty
Barcelona tapaði sínum fyrstu stigum í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld er liðið mætti Girona á heimavelli.



Það byrjaði vel fyrir Barcelona er argentíski snillingurinn Lionel Messi kom þeim yfir á 19. mínútu leiksins.



Hlutirnir breyttust hins vegar töluvert þegar Clement Lenglet fékk að líta á rauða spjaldið á 35. mínútu fyrir olnbogaskot. Beint rautt spjald og Barcelona orðnir manni færri.



Girona nýttu sér liðsmuninn og jöfnuðu leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiksins. Markið gerði Cristhian Stuani.



Stuani var svo aftur á ferðinni strax á 51. mínútu og kom Girona yfir.



Eftir að Barcelona lentu undir réðu þeir lögum og lofum í leiknum þrátt fyrir að vera einum manni færri. Það skilaði sér á 63. mínútu þegar Gerard Pique skoraði eftir undirbúning Messi.



Barcelona reyndu hvað þeir gátu til að skora sigurmarkið en það tókst ekki og lokatölur 2-2.



Fyrir leikinn var Barcelona með fullt hús stiga og eru þetta því fyrstu töpuðu stig Börsunga á tímabilinu. Þeir eru nú jafnir erkifjendum sínum, Real Madrid á toppi deildarinnar.



Girona er hins vegar að byrja vel í vetur og eru þeir í 6. sæti deildarinnar með 8. stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira