Enski boltinn

Skotafjöldinn hjá Harry Kane hefur hrunið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Vísir/Getty
Margir hafa áhyggjur af enska landsliðsframherjanum Harry Kane sem hefur gengið frekar illa að komast í færi eða skora mörk að undanförnu.

Harry Kane hefur verið einn allra heitasti framherji ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin tímabil en á þessu tímabili er hann ekki að ná nærri því eins mörgum skotum að marki mótherjanna.

Harry Kane hefur skorað 2 mörk í fyrstu 5 leikjum Tottenham á tímabilinu og þetta voru fyrstu mörkin hans í ágúst. Það er framför en nú er kappinn ískaldur í september.

Kane hefur ekki skorað í þremur síðustu leikjum Tottenham, tveimur í deild og einum í Meistaradeild. Kane skoraði heldur ekki í tveimur leikjum sínum með enska landsliðinu fyrr í mánuðinum.

Harry Kane hefur þar með spilað fimm leiki í röð án þess að skora og það þykir mjög mikið hjá þessum mikla markaskorara.

Squawka Football vekur athygli á skotafjölda Harry Kane á þessu tímabili í ensku úrvalsdeildinni eins og sjá má hér fyrir neðan.





Skotafjöldi Harry Kane hefur hrunið á þessu tímabili en hann er að ná þremur færri skotum að marki í leik.

Margir velta því fyrir sér hvort að Harry Kane sé hreinlega þreyttur eftir mikið álag á árinu 2018, bæði með Tottenham og enska landsliðinu.

Eitthvað er það sem stuðlar að því að Harry Kane er ekki að ná að skjóta á markið og þú skorar ekki nema að skjóta.

Næsti leikur Harry Kane og Tottenham liðsins er á móti Brighton & Hove Albion á morgun en þetta er síðdegisleikurinn í enska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×