Enski boltinn

Klopp býst ekki við því að Mohamed Salah skori eins mikið og í fyrra: „Vá er þetta krísa“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah.
Mohamed Salah. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, þurfti að svara spurningum um Mohamed Salah á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Southampton um helgina.

Mohamed Salah skoraði tvö mörk í fyrstu þremur leikjunum en hefur ekki skorað í síðustu þremur leikjum liðsins, tveir þeirra voru í deildinni og einn í Meistaradeildinni.

Salah skoraði 44 mörk á síðustu leiktíð og varð markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar á sínu fyrsta tímabili með Liverpool.





Mohamed Salah skoraði þrjú mörk í fyrstu fimm deildarleikjunum í fyrra og endaði með 32 mörk í 36 leikjum.

„Vá, er þetta krísa hjá honum,“ sagði Jürgen Klopp í léttum tón. „Það man enginn eftir því hvernig hann byrjaði á síðustu leiktíð. Þetta er ekkert vandamál fyrir okkur,“ sagði Klopp.

Þýski knattspyrnustjórinni hefur engar áhyggjur af markaskori Mohamed Salah en skilur vel að stuðningsmenn liðsins vilji sjá fleiri mörk frá Salah.

„Auðvitað búast allir við að hann haldi áfram að skora eins og í fyrra. Við búumst aftur á móti ekki við því þótt við viljum að sjálfsögðu að hann skori sem flest mörk,“ sagði Klopp.





Liverpool er í öðru sæti í deildinni á lakari markatölu en Chelsea. Bæði lið hafa unnið fyrstu fimm leiki sína. Klopp hrósar Salah fyrir varnarvinnuna.

„Hann hefur verið frábær í varnarvinnunni í síðustu tveimur leikjum, fullkominn, og það er svo mikilvægt í þessum leikjum. Það segir líka allt um hann. Hann er virkilega tilbúinn að vinna fyrir liðið,“ sagði Klopp.

„Það er fullkomlega eðlilegt að það komi upp tímabil þar sem sóknarleikmaður er ekki að skora mörk. Það er samt mikil ógn af honum, hann hefur komist í góð færi í þessum leikjum og hann er í góðu formi,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×