Enski boltinn

Benitez vill að ummæli Zaha verði tekin fyrir

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Zaha vill fá meira fyrir sinn snúð
Zaha vill fá meira fyrir sinn snúð vísir/getty
Rafael Benitez vill að enska knattspyrnusambandið taki fyrir ummæli Wilfried Zaha þar sem hann segist þurfa að fótbrotna til þess að andstæðingurinn fái rautt spjald fyrir að brjóta á honum.

Zaha lét orð sín falla eftir leik Crystal Palace og Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Hann var þar að vitna í brot Mathias Jorgenson á sér, en Jorgenson fékk gult spjald fyrir að fella Zaha.

„Ég veit það fyrir víst að sumir ætla sér að reyna að meiða mig og ég veit ekki hvað ég á að gera lengur,“ sagði Zaha. „Ég enda á því að rífast við dómarana. Í dag þá fór andstæðingurinn með takkana í sköflunginn á mér, þurfa þeir að brjóta á mér fótinn til þess að fá rautt spjald?“

Samkvæmt heimildum Sky Sports fréttastofunnar þá munu dómarar í úrvalsdeildinni ekki breyta því hvernig þeir dæma brot á Zaha.

Benitez, sem mætir Zaha og félögum á morgun, sagðist vera hissa á ummælum Zaha.

„Hann er góður leikmaður, á því er enginn vafi, en ég held að enska knattspyrnusambandið verði að taka á þessum ummælum,“ sagði Benitez.

„Ég er viss um að Andre Marriner [dómari leiksins á morgun] muni ekki hafa hugan við orð Zaha í leiknum. Hann er mjög reyndur, þó hann sé kannski ekki með bestu ferilskránna þegar kemur að rauðum spjöldum, en ég hef trú á honum.“

Það hefur verið brotið 11 sinnum á Zaha í fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni til þessa. Hann var á meðal fimm efstu leikmannanna sem brotið var oftast á á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×