Innlent

Umfangsmiklar æfingar á Reykjanesbraut, Akureyri og í Norðfirði

Atli Ísleifsson skrifar
Um 150 viðbragðsaðilar eru á vettvangi, auk fimmtíu leikara.
Um 150 viðbragðsaðilar eru á vettvangi, auk fimmtíu leikara. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur fyrir æfingum á Reykjanesbraut, Akureyri og í Norðfirði í kvöld í samstarfi við samhæfingastöð almannavarna og aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins. Æfingarnar eru hluti af kynningar- og fjárölfunarátaki félagsins en söfnunarþáttur er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld.

Stærsta og fjölmennasta æfingin fer fram á Reykjanesbraut við gatnamótin að Keili þar sem æft verður samkvæmt viðbragðsáætlun vegna hópslysa í umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum. Alls eru um fimmtíu leikarar á æfingunni sem farðaðir eru eftir áverkalýsingum til að gefa viðbragðsaðilum raunveruleg verkefni. Um 150 viðbragðsaðilar eru nú á vettvangi.

Á Akureyri verður æfð leit að týndri manneskju sem þróast eftir því sem á líður og gætu áherslur breyst varðandi leitarsvæði og kringumstæður.

Á Neskaupstað í Norðfirði fer fram sjóbjörgunaræfing þar sem eldur kemur upp í mannlausum bát og þarf að hefja leit. Björgunarskip og bátar frá Austurlandi boðuðu þátttöku í æfingunni.

Hér má fylgjast með beinni útsendingu söfnunarþáttarins.

Að neðan má sjá myndir Jóhanns K. Jóhannssonar fréttamanns frá æfingunni á Reykjanesbraut.

Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Vísir/Jóhann K. Jóhannsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×