Enski boltinn

Mourinho: Erum að bæta okkur sem lið ekki einstaklingar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jose Mourinho
Jose Mourinho vísir/getty
Jose Mourinho segir framfarir í frammistöðu Manchester United í síðustu leikjum vera vegna þess að liðið sé að bæta sig sem heild, en ekki vegna einstaklingsframtaka.

United byrjaði tímabilið ekki vel og var frammistaða liðsins í fyrstu leikjunum mikið gagnrýnd. Liðið hefur hins vegar unnið þrjá síðustu leiki sína, allt á útivelli.

Chris Smalling og Victor Lindelöf mynduðu miðvarðarparið í þessum þremur leikjum. Mourinho vildi þó ekki gefa þeim allt hrósið.

„Liðið sem heild er að vinna betur úr vandamálum í vörninni en áður. Ég vil ekki segja að ástæðan sé að nú eru Smalling og Lindelöf í vörninni en áður hafi það verið Eric Bailly og Phil Jones,“ sagði Mourinho.

„Liðið er þéttara. Hugarfarið, samskiptin og samvinnan hafa batnað. Góðar frammistöður skila sér í meira sjálfstrausti.“

„Við erum að batna sem lið, ég vil ekki nefna það eftir Chris eða Victor.“

United mætir nýliðum Wolves á morgun á heimavelli, fyrsti heimaleikurinn síðan liðið var sundurspilað af Tottenham í lok ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×