Enski boltinn

Pochettino: Stress vegna handtökunnar ástæða meiðsla Lloris

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hugo Lloris fær sér vatnsopa.
Hugo Lloris fær sér vatnsopa. vísir/getty
Mauricio Pochettino telur að meiðsli Hugo Lloris séu vegna stress yfir því að hafa verið handtekinn.

Lloris var handtekinn fyrir ölvunarakstur fjórum dögum áður en hann meiddist í leik Tottenham og Manchester United. Meiðslin hafa haldið honum frá liði Tottenham í þremur síðustu leikjum, leikjum sem Tottenham tapaði öllum.

„Ég held hann hafi verið mjög stressaður í leiknum við Manchester United. Allt þetta stress, það var kannski örlagavaldur í meiðslunum,“ sagði Pochettino.

„Meiðslin gefa honum tíma til þess að hugsa og slaka aðeins á. Það að spila leikinn eftir hvað gerðist var mjög stressandi fyrir hann.“

Pochettino veit enn ekki nákvæmlega hversu lengi Lloris verður frá. Ef allt fer samkvæmt áætlun ætti hann að geta snúið aftur í byrjunarliðið um næstu helgi.

Þá vildi knattspyrnustjórinn ekki ræða hvort Lloris hafi verið refsað af Tottenham fyrir ölvunaraksturinn. Hann fékk 50 þúsund punda sekt og 20 mánaða akstursbann frá yfirvöldum á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×