Innlent

Skoðaði aldrei sjúkraskrá sér til skemmtunar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Vísir/Pjetur
Framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands var í fullum rétti þegar hann skoðaði sjúkraskrá konu sem kvartaði yfir veitingu heilbrigðisþjónustu hjá stofnuninni. Þetta er niðurstaða Persónuverndar. RÚV greindi fyrst frá.

Kvörtun vegna málsins barst til Persónuverndar frá lögmanni konunnar í mars á síðasta ári. Þar kom fram að eftir að konan hafði kvartað yfir  veitingu heilbrigðisþjónustu til landlæknis hafi lögmaðurinn leitað til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands eftir umsögn.

Meðal þeirra gagna sem þá bárust lögmanninum var greinargerð frá framkvæmdastjóra lækninga við stofnunina þar sem sjúkrasaga konunnar var rakin og litið til þeirrar heilbrigðisþjónustu sem hún taldi að hefði verið ranglega veitt.

Í kvörtun lögmanns konunnar segir að framkvæmdastjórinn hafi aldrei átt í samskiptum við konuna en „engu að síður skoðar hann sjúkraskrá hennar í að því er virðist algjöru tilgangsleysi enda var algjörlega óþarft og í raun óskiljanlegt hvers vegna leitað var álits hans. Þá leitaði hann ekki samþykkis hennar fyrir því að skoða sjúkraskrá hennar við vinnslu greinargerðar sinnar.“

Í svari framkvæmdastjórans til Persónuverndar kom fram að hann sé ábyrgðarmaður rafrænnar sjúkraskrár og hafi eftirlitsréttindi í því sambandi, en jafnframt sé hann þar yfirmaður læknisþjónustu. Svo til öll, ef ekki öll, erindi sem stofnuninni berist frá landlækni komi til  umfjöllunar hans og því í hans verkahring að svara þeim.

Í svari framkvæmdastjórans kom þá fram að óhjákvæmilegt sé að hann skoði sjúkraskrár viðkomandi skjólstæðinga en tekið var sérstaklega fram að það gerði hann aldrei af léttúð eða sér til skemmtunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×