Íslenski boltinn

Valskonur unnu nýkrýnda Íslandsmeistara │Berglind fær gullskóinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir varð markahæst í Pepsi deild kvenna með 19 mörk
Berglind Björg Þorvaldsdóttir varð markahæst í Pepsi deild kvenna með 19 mörk Fréttablaðið/Anton brink
Nýkrýndir Íslandsmeistarar Breiðabliks enduðu tímabilið í Pepsi deild kvenna á tapi fyrir Val í lokaumferð deildarinnar. Berglind Björg Þorvaldsdóttir tryggði sér gullskóinn með tveimur mörkum.

Breiðablik hafði nú þegar tryggt sér sigurinn í deildinni fyrir lokaumferðina og var því ekkert um að kepp nema heiðurinn þegar liðið mætti á Hlíðarenda í dag.

Valskonur skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik og leiddu 2-0 í leikhléi, Dóra María Lárusdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir gerðu mörkin. Fanndís Friðriksdóttir kom Val í 3-0 á 57. mínútu.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir var markahæst í deildinni fyrir lokaumferðina og hún tryggði sér gullskóinn með því að skora tvö mörk fyrir Blika. Hún náði þó ekki þrennunni, lokatölur urðu 3-2 á Origovellinum að Hlíðarenda.

Grindavík og FH voru bæði fallin niður í Inkasso deildina fyrir þessa lokaumferð. Liðin mættust suður með sjó og hafði Grindavík betur 2-0.

Stjarnan sigraði Þór/KA 2-0 í Garðabæ í síðasta leik Ólafs Þórs Guðbjörnssonar með liðið, Selfoss hafði betur í Suðurlandsslag við ÍBV og markalaust jafntefli var í leik HK/Víkings og KR í Víkinni.

Úrslit dagsins í Pepsi deild kvenna:

Valur - Breiðablik 3-2

Grindavík - FH 2-0

Selfoss - ÍBV 1-0

Stjarnan - Þór/KA 2-0

HK/Víkingur - KR 0-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×