Enski boltinn

Klopp var ánægður með Shaqiri þrátt fyrir skiptinguna í hálfleik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp og Shaqiri á góðu nótunum.
Klopp og Shaqiri á góðu nótunum.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segist hafa verið ánægður með úrslitin en ekki spilamennskuna í 3-0 sigrinum á Southampton á heimavelli í gær.

Xherdan Shaqiri átti mjög góðan leik í byrjunarliði Liverpool en hann fékk tækifærið og greip það. Klopp segir að hann horfi frekar í úrslitin frekar en spilamennskuna.

„Úrslitin eru mjög góð þrátt fyrir að spilamennskan hefði getað verið betri. Við gerðum skiptingar sem breyttu taktinum því ég skipti einnig um leikkerfi,” sagði sá þýski.

„Að skipta um kerfi án þess að æfa það er erfitt. Við reyndum dálítið nýtt og breytingarnar sem við gerðum voru góðar því Shaqiri og Matip höfðu mikil áhrif.”

Shaqiri átti þátt í tveimur mörkum í fyrri hálfleik en var svo tekinn af velli í hálfleik. Klopp útskýrði þá skiptingu

„Ég sagði við hann í hálfleik að ég hef aldrei tekið mann af velli í hálfleik sem er ekki meiddur eftir svona frammistöðu en við þurftum að fara til baka í okkar skipulag.”

„Matip spilaði frábærlega. Það sem mér líkaði ekki við í gær er mér að kenna,” sagði Þjóðverjinn hress og segir að meiðsli Virgil Van Djik séu ekki alvarleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×