Enski boltinn

Mourinho þarf að hætta að gagnrýna hugarfarið: „Stjóri liðsins er ábyrgur fyrir hugarfarinu“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mourinho var pirraður á hliðarlínunni í gær
Mourinho var pirraður á hliðarlínunni í gær vísir/getty
Jose Mourinho þarf að setja fordæmið fyrir hugarfar leikmanna Manchester United eftir að liðið tók skref aftur á bak í gær.

Þetta sagði Jason Burt, blaðamaður Daily Telegraph, í umræðuþættinum Sunday Supplement á Sky Sports.

Eftir þrjá sigurleiki í röð á útivelli, gegn Burnley, Watford og Young Boys í Meistaradeildinni, var útlitið orðið mun bjartara í herbúðum United. Liðið gerði hins vegar jafntefli við nýliða Wolves á heimavelli í gær og er farið að dökkna yfir á nýjan leik.

Mourinho sagði eftir leikinn að honum hafi ekki líkað lið sitt í gær og var hann pirraðari út í leikmennina eftir þennan leik heldur en 0-3 tapið fyrir Tottenham í síðasta heimaleik þar á undan.

„Þeir virðast alltaf fara eitt skref áfram og tvö aftur á bak,“ sagði Burt. „Mourinho var mjög beinskeittur í gagnrýni sinni á leikmenn sína. Hann talaði um hugarfarið og sagði leikmennina aðeins hafa sýnt 30 prósent af getu sinni.“

„Að nýliðar komi á Old Trafford og stjórni í raun leiknum er óásættanlegt.“

„Það vekur áhyggjur hjá mér þegar stjórar tala um hugarfar leikmanna. Hann er sá sem setur tóninn fyrir hugarfarið, stjóri félagsins. Ef hann getur ekki stillt hugarfarið rétt þá er hann ábyrgur fyrir því.“

„Hann setur tóninn svo hann ætti að gagnrýna sjálfan sig meira,“ sagði Burt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×