Erlent

Feðgarnir sem skutu nágranna sinn til bana handteknir á nýjan leik

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Feðgarnir John Miller og Michael Miller hafa verið ákærðir í Texas fyrir að skjóta Aaron Howard, nágranna þeirra, til bana þann 1. september.
Feðgarnir John Miller og Michael Miller hafa verið ákærðir í Texas fyrir að skjóta Aaron Howard, nágranna þeirra, til bana þann 1. september.
Feðgarnir John Miller og Michael Miller sem hafa verið ákærðir í Texas fyrir að skjóta Aaron Howard, nágranna þeirra, til bana þann 1. september vegna deilna um rusl, hafa verið handteknir á nýjan leik. Þeim hafði áður verið sleppt eftir að þeir greiddu hovr um sig tryggingu upp á 25.000 Bandaríkjadali, eða rúmlega 2,7 milljónir íslenskra króna.

Yfirlögmaður Taylor og Jones sýslu, þar sem atvikið átti sér stað, flutti á föstudag tillögu er laut að því að hækka tryggingargjald feðganna þar sem það hafi ekki verið nógu hátt til að byrja með. Tillagan hlaut náð í augum dómstóla og úr varð að tryggingargjald feðganna var tífaldað. Þeim hefur því verið gert að snúa aftur í fangelsi.

Feðgarnir voru eins og áður segir fyrst handteknir þann 1. september og sleppt stuttu síðar. Því furða margir sig á því hvers vegna tillagan um hækkun á tryggingargjaldi þeirra hafi ekki komið fyrr en raun ber vitni, en fjölmiðlar vestanhafs telja að vinsældir myndskeiðs af atburðinum sem Kara Box, eiginkona Howards, deildi á netinu hafi haft sitt að segja um viðbrögð stjórnsýslunnar við málinu.

Daginn áður en feðgarnir voru handteknir í annað skiptið hringdi blaðamaður í John Miller sem vildi ekki tjá sig um málið. Hann sagðist telja það svo að um einkamál á milli sín og Texas væri að ræða.

Myndskeiðið má sjá hér að neðan en rétt er að vara lesendur við því að það sem þar fer fram gæti vakið óhug.

 

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×