Erlent

Handtekinn í Buckinghamhöll

Andri Eysteinsson skrifar
Buckinghamhöll í London er aðsetur Elísabetar II. Bretadrottningar.
Buckinghamhöll í London er aðsetur Elísabetar II. Bretadrottningar.
Breska lögreglan handtók í dag mann við gestainngang að Buckinghamhöll í Lundúnum.

BBC greinir frá því að maðurinn sem er 38 ára gamall hafi verið stöðvaður af öryggisvörðum hallarinnar grunaður um að hafa rafbyssu meðferðis.upp komst um rafvopnið þegar maðurinn gekk í gegnum öryggishlið við gestainngang hallarinnar.

Lögregla telur að atvikið sé ekki tengt hryðjuverkastarfsemi en hefur manninn enn í haldi sínu.

Hluti hallarinnar er opinn gestum í tíu vikur á hverju sumri. Buckinghamhöll er eitt frægasta kennileiti Lundúna og er aðsetur breska þjóðhöfðingjans, drottningarinnar Elísabetar II.

Elísabet var ekki stödd í höllinni þegar maðurinn var handtekinn en hún dvelur nú í aðsetri sínu í Balmoral kastala í Skotlandi.

Öryggisgæsla er ströng við höllina en þó hafa í gegnum tíðina komið upp atvik þar sem hún bregst. Síðast í ágúst laumaðist heimilislaus maður inn í garð hallarinnar en lengst náði maður að nafni Michael Fagan árið 1982 en hann komst inn í herbergi drottningar þar sem hann settist á rúm hennar á meðan hún svaf. Á þeim tíma var þó ekki hægt að dæma menn fyrir samskonar innbrot í Buckinghamhöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×