Fótbolti

Berglind markahæst og Sandra María best

Hjörvar Ólafsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir var markahæst í efstu deild.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir var markahæst í efstu deild. vísir/bára
Lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu fór fram á laugardaginn, en fyrir umferðina var klárt að Breiðablik yrði Íslandsmeistari og að FH og Grindavík myndu falla niður í næstefstu deild. Þá þurfti Stephany Mayor, framherji Þórs/KA, að koma til móts við liðsfélaga sína hjá mexíkóska kvennalandsliðinu og þar af leiðandi var henni ómögulegt að berjast við Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur, sóknarmann Breiðabliks, um markadrottningartitilinn.

Berglind Björg skoraði bæði mörk Breiðabliks í 3-2 tapi liðsins gegn Val og stóð uppi sem markahæsti leikmaður deildarinnar með 19 mörk. Stephany Mayor kom næst með 15 mörk.

Sandra Maria Jessen, sóknartengiliður Þórs/KA, sem kom næst á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar með 14 mörk, var valin besti leikmaður af leikmönnum deildarinnar. Sandra María er fyrirliði Þórs/KA sem hafnaði í öðru sæti deildarinnar þetta árið. Efnilegasti leikmaðurinn var Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks. Alexandra sem gekk til liðs við Breiðablik frá Haukum fyrir keppnistímabilið lék alla leiki Blika í sumar og skoraði í þeim fimm mörk. Hún var nýverið verðlaunuð fyrir góða frammistöðu sína í deildinni í sumar með sæti í íslenska A-landsliðinu í leikjum liðsins gegn Þýskalandi og Tékklandi í undankeppni HM 2019.

Bríet Bragadóttir var kosin besti dómarinn, en þetta er annað árið í röð sem leikmönnum deildarinnar þykir Bríet dæma best í deildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×