Innlent

Andfúlum tröllum kennt um frestun á árshátíð stjórnarráðsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Starfsmaður ráðuneytisins ber kennsl á tröllin sem stálu árshátíðinni.
Starfsmaður ráðuneytisins ber kennsl á tröllin sem stálu árshátíðinni.
Árshátíð stjórnarráðsins verður haldin þann 6. apríl 2019 eða hálfu ári eftir fyrirhugaðan árshátíðardag, þann 6. október næstkomandi. Sú dagsetning hugnaðist ekki ráðherrum í ríkisstjórninni og var því ákveðið að slá árshátíðinni á frest. Fréttablaðið greindi frá því í morgun og sagðist hafa heimildir fyrir óánægju meðal starfsfólks og ákvörðunin væri umdeild.

Í framhaldinu virðist blaðið hafa komist á snoðir um athyglisvert myndband sem var í birtingu á YouTube.

Árshátíð stjórnarráðsins er skipulögð af ólíkum ráðuneytum ár hvert. Í ár var komið að mennta- og menningarmálaráðuneytinu og átti að fagna þann 6. október. Þannig vill til að þan dag eru tíu ár liðin frá því að Geir H. Haarde bað Guð um að blessa Ísland.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra eru sagðar hafa ákveðið að fresta árshátíðinni. Í framhaldinu virðist hafa verið tekin sú ákvörðun að snúa frestuninni upp í grín.

Framleiðsluteymið Beit, skipað þeim Herði Þórhallssyni og Þorsteini Roy Jóhannssyni, framleiddi myndbandið. Söguþráðurinn er í stuttu máli þannig að eftir langan og strangan undirbúning árshátíðarinnar er henni komið fyrir í kassa merktum 6. október. Kassanum er svo stolið af tröllum en starfsmaður ráðuneytisins bar kennsl á tröllin. Sagði hann þau hafa verið mjög andfúl líkt og þau hefðu borðað tíu kíló af grænmetisbuffum úr mötuneytinu.

Á öðrum myndum voru ráðherrarnir Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir.

Björn Malmquist, fréttamaður RÚV, er í aðalhlutverki í myndbandinu sem fréttamaður að flytja tíðindi af þjófnaðinum. Þá kemur Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri við sögu.

Myndbandið, sem er um fjögurra mínútna langt, virðist hafa verið sett á YouTube þann 4. september en aðeins aðgengilegt þeim sem eru með slóðina á myndbandið. Það finnst ekki í leit á vefnum.

Fréttastofa spurði Kristrúnu Heiðu Hauksdóttur, upplýsingafulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins, út í myndbandið. Hún ætlaði að kanna málið og hafa samband við fréttastofu.

Uppfært klukkan 13:19

Myndbandið hefur verið fjarlægt af YouTube.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×